GM rekur sjórnanda

General Motors hefur rekið Sam Winegarden, æðsta yfirmann þeirrar heimsdeildar GM sem sér um knýbúnað bíla (vélar, gírkassa og drif). Winegarden var rekinn þegar upp komst að starfsmenn deildarinnar hans hafa ítrekað falsað og fegrað eyðslu- og mengunartölur bíla í Indlandi. Vegna þessa neyðist GM til að innkalla 114 þúsund bíla til að lagfæra þá þannig að þeir eyði og mengi minna.

Sam Winegarden hefur starfað mjög lengi hjá GM. Hann byrjaði hjá Buick árið 1969 en hefur frá árinu 2004 verið æðsti yfirmaður knýbúnaðardeildar GM og ber sem slíkur ábyrgð á athöfnum undirmanna sinna og neyðist nú til að til að taka afleiðingum gerða þeirra.

Í byrjun júlímánaðar var framleiðsla á indverska jepplingnum Chevrolet Tavera stöðvuð. Tveimur vikum síðar sendi GM frá sér tilkynningu um að fiktað hefði verið við mengunar- og eyðslutölur bílsins.  Reyndar er tæpast hægt að tala um fikt því að starfsmenn höfðu kerfisbundið sett minni vélar í þá Taverabíla sem til stóð að senda í eyðslu- og mengunarmælingar til að tölurnar yrðu hagstæðari.

Chevrolet Tavara er vinsæll fjölskyldujepplingur sem sérstaklega er byggður til að þola indversku vegina sem mjög víða eru vondir. Bíllinn er eingöngu á markaði í Indlandi.

Í yfirlýsingu frá GM sem birtist í Automotive News segir að ásamt Winegarden hafi allmörgum samstarfsmönnum hans verið gert að taka pokann sinn fyrir að hafa brotið gegn siða- og starfsreglum General Motors.