GM tilbúið til að gefa Opel og Saab?

http://www.fib.is/myndir/Opel_Logo.jpg

General Motors mun líklega losa sig við ráðandi hlut sinn í Opel í Þýskalandi og Vauxhall í Bretlandi með því að nánast gefa hann einhverjum – láta hann frá sér án þess að fá krónu í sinn hlut. Þetta segir Financial Times og hefur eftir tveimur heimildamönnum sem sagðir eru vel inni í fyrirætlunum stjórnenda GM.

Blaðið segir einnig hugsanlegt að hið áður voldugasta bílafyrirtæki heims lýsi sig gjaldþrota í Bandaríkjunum og að það glími við alvarlegan lausafjárskort í Evrópu. Stjórnendurnir hafi að undanförnu átt í viðræðum við a.m.k. sex stór fjármála- og iðnfyrirtæki um að fá þau til að gerast hluthafar í Opel/Vauxhall. Forstjóri GM, Fritz Henderson sagði í síðustu viku að að leit að fjárfestum stæði yfir og skýr svör frá þeim þyrftu að liggja fyrir innan þriggja vikna.

Heimildamenn FT segja að stjórnendur GM séu að reyna að fá fjárfesta til að taka Opel/Vauxhall yfir gegn a.m.k. 500 milljón evra greiðslu sem öll gangi beint til Opel án þess að GM fái krónu af henni í sinn hlut. Sömu heimildir herma að GM sé tilbúinn að losa sig við Saab á sama hátt. Saab fékk greiðslustöðvun í febrúar sl. og stjórnendurnir leita nú leiða til að blása nýju lífi í fyrirtækið og finna því nýja eigendur.

General Motors eignaðist ráðandi hlut í Opel árið 1929 og hefur átt hann óslitið síðan.