Góð ryðvörn er ennþá nauðsyn

Enginn bíll er byggður með það fyrir augum að hann standist danska (og íslenska) loftslagið og saltburð á vegi og götur að vetrarlagi. Því ætti að ryðverja alla nýja bíla áður en þeir eru teknir í notkun, segja FDM, systurfélag FÍB og tæknistofnunin Teknologisk Institut. Loftslagið hér á Íslandi er ekki ólíkt því danska og sömuleiðis saltburðurinn á götur og vegi að vetrarlagi, þannig að ryðvörn er ekki síður þörf hér á landi en þar.

Ef þú vilt að nýi bíllinn þinn endist lengi þá skaltu láta ryðverja hann strax þegar þú kaupir hann nýjan, enda þótt kostnaðurinn sé lítt skemmtileg viðbót við verðið. Þótt dýrt sé skilar ryðvörnin sér síðarmeir í rekstrinum og ekki síst þegar bíllinn er seldur. „Fyrsta ryðvörnin er sú mikilvægasta. Hún innsiglar og ver þá staði í bílnum sem ekki voru ryðvarðir af hendi verksmiðjunnar. Því hefur verið haldið mjög á lofti undanfarin mörg ár af bílaumboðum og ýmsum sem vit þykjast hafa á bílum, að sérstök nýryðvörn sé óþörf og jafnvel til bölvunar. Nóg sé að ryðverja þá ryðstaði í bílnum þegar ryðið verður sýnilegt. Þessari kenningu hafna FDM og Teknologisk Institut.

Jörgen Jörgensen tæknistjóri FDM  segir að bílar séu vissulega mis ryðsæknir auk þess sem notkun bílsins og hvernig og hvar honum er ekið ráði einnig nokkru. Af þessum þáttum beri að hafa hliðsjón þegar hugað er að endurryðvörn bílsins. En góð ryðvörn í upphafi lengi líf bæði yfirbyggingar og undirvagns, hemlaröra og slíks. Góð ryðvörn í upphafi og eðlileg endurnýjun hennar skilar því betri og öruggari bíl, lægri viðhaldskostnaði og hærra endursöluverði. 

Teknologisk Institut og FDM leggja áherslu á að það þurfi að ryðverja alla bíla, líka þá sem eru með zinkhúðun (galvaniseringu). Sérstaklega sé nauðsynlegt að ryðverja strax ódýrustu bílana því að minnst er lagt í ryðvarnir í þeim af hendi framleiðenda. 

 

Ryðvarnaráð Teknologisk Institut og FDM:

1      Láttu ryðverja nýja bílinn strax og ekki síðar en innan fyrstu mánaðanna frá þvi þú keyptir hann. Mun betra er að fyrirbyggja ryðmyndun en stöðva hana eftir að hún er komin af stað. Allir bíla þola það að vera ryðvarðir.

2      Hvernig og í hvað bíllinn er notaður skiptir máli um hversu oft skal endurnýja ryðvörnina.

3      FDM og Teknologisk Institut ráðleggja bíleigendum að þeir fái óvilhallan aðila til að meta hvenær þörf er á að ryðverja.

4      Það er óhætt að ryðverja bíla á hvaða tíma árs sem er svo framarlega sem sá sem verkið vinnur fari eftir leiðbeiningum um verkið.

5      FDM og Teknologisk Institut mæla með því að neytendur fái bíla sína ryðvarða hjá aðilum sem fengið hafa starfsemina tekna út af til þess bærum  óháðum aðilum.

6      Ryðvörn er góð fjárfesting, sérstaklega ef ætlunin er að eiga bílinn lengi. Ryðvörn skilar heilbrigðari yfirbyggingu og undirvagni og ver auk þess öryggisbúnað eins og hemlarör og spyrnur í hjólabúnaði.

7      Zinkhúðaðir (galvaniseraðil) bílar skal líka ryðverja til að varna því að selta tæri zinkhúðina og ryðið taki að herja á stálið.

8      Ef meiningin er að selja nýja bílinn innan þriggja ára kann að vera að ryðvarnarkostnaðurinn skili sér ill atil baka. En vel hirtir bílar selst oftast fljótar en hinir.

9      Bílar eru einfaldlega ekki byggðir til þess að endast í 17-18 ár því raka og breytilega loftslagi sem ríkir í Danmörku og á Íslandi. Því ódýrari sem bíllinn er, þeim mun líklegri er að framleiðandi hafi sparað í ryðvörninni. En í vönduðust bílum fyrirfinnast líka staðir í innviðum þeirra sem eru óvarðir.

10    Bílar ryðga árið um kring vegna loftraka sem þéttist. Salt er mjög slæmur óvinur og veldur minnst 25% alls ryðs í bílum.

11    Ef þú kaupir notaðan bíl, athugaðu hvort hann hefur verið ryðvarinn upphaflega og hvor ryðvörninni hafi verið haldið við.  Fáðu óvilhallan kunnáttumann til að athuga þetta með þér. Þetta getur sparað þér stórar fjárhæðir síðarmeir.