Góðar og samræmdar vegamerkingar eru lífsnauðsyn

EuroRAP sem rannsakar öryggi vega og EuroNCAP sem árekstrarprófar nýja bíla - tvær öflugustu stofnanir heims sem berjast gegn umferðarslysum hafa tekið höndum saman og skora á bílaframleiðendur og veghaldara að þeir vinni saman að aðgerðum sem komið geta í veg fyrir umferðarslys. Í áskoruninni felst að Bílaframleiðslugeirinn og veghaldarar (yfirleitt ríki eða ríkisstofnanir) vinni í sameiningu að því að innleiða þá slysavarnatækni sem þegar fyrirfinnst  og beiti sameiginlega því hugviti og þekkingu sem til staðar er innan beggja geira að því markmiði að forða þúsundum mannslífa frá því að glatast í slysum.

Í sameiginlegri rannsóknaskýrslu sem EuroRAP og Euro NCAP hafa gefið út og fjallar um hvernig bíll og vegur geta „talað saman“ og forðað slysum. Skýrslan nefnist Roads that Cars can Read eða vegir sem bílarnir geta lesið. Niðurstaða hennar er í stuttu máli sú að það sem fljótast stuðlar að skjótri og árangursríkri nýtingu rafrænnar slysavarnatækni eru endurbætur á skiltum og yfirborðsmerkingum vega. 

Tæknin þegar til

Tæknin fyrirfinnst nú þegar og er samkvæmt skýrslunni enginn vafi á því að eftir því sem hún verður almennari í bílum í Evrópu og í vegunum sjálfum mun slysum stórlega fækka. Her er um að ræða búnað í bílunum, eins og myndavélar eða tölvusjón sem les veginn og það sem framundan er og bíllinn grípur sjálfur inn í ef hætta er á ferðum sem ökumanni yfirsést. Til að sem bestur árangur náist þarf viðhald vega og vegmerkinga að vera í lagi, en í skýrslunni segir að það sé mjög misgott. Þrátt fyrir fögur orð stjórnmálamanna og veghaldara síðustu hálfa öld sé enn pottur brotinn víða í þessum efnum og samræming merkinga og viðhaldsvinnu eigi enn langt í land.

John Dawson, stjórnarformaður EuroRAP (European Road Assessment Programme) segir að miklum fjármunum hafi verið varið til að þróa tækni sem gjörbylt öryggi fólksbíla til hins betra og eigi eftir að gera enn betur. Það skjóti því skökku við hversu lítið því hefur verið sinnt að ganga sómasamlega frá grunnvallarmerkingum á sjálfum vegunum og leiðbeiningum sem ökumönnum er ætlað að lesa úr.  Hann segir að við gerð skýrslunnar hafi enginn sá veghaldari í Evrópu fyrirfundist sem mælir kerfisbundið gæði og árangur vegaskilta og yfirborðsmerkinga. (sem EuroRAP gerir. Innsk. blm). ~einni öld eftir að glitaugað var fundið upp erum við tæknilega í þeim sporum að hugsa upp á nýtt hvernig lesa á úr veginum framundan með tilliti til öryggis. Meginatriðið er það að það sem kemur manneskjunum til góða í þeim efnum kemur ökutækjunum líka til góða.

Læsilegir vegir

Markmiðið um læsilega vegi fyrir bílana krefst þess að vegagerðir og veghaldarar og bílaiðnaðurinn vinni saman og einbeiti sér að því að samhæfa og endurbæta virkni tvennskonar tækni sem hefur verið tiltæk um langt skeið. Það er annarsvegar akreinastuðningstækni (Lane Support) og hraðavari (Speed Alert). Akreinastuðningstæknin vinnur þannig að rafeinda-auga les akreinalínur og stjórntölva bílsins grípur inn í og réttir stefnu bílsins af ef hann er á leið út af akreininni, hvort heldur út af veginum eða inn í umferðina sem á móti kemur. Einnig er til lágtækni-akreinastuðningur sem eru grófgerðar mið- og kantlínur sem skila titringi og skarkala inn í bílinn ef ekið er á þær.

Hraðavarar vinna þannig að þeir lesa af skiltum í vegarkantinum sem segja til um hámarkshraðann á hverjum kafla og ýmist vara ökumann við eða stjórntölva bílsins grípur inn í og hægir á bílnum niður í hinn leyfða hámarkshraða.

Michiel van Ratingen, forstjóri European New Car Assessment Programme (Euro NCAP) segir að meðfram evrópskum vegum gefi að líta ótölulega fjöld krossa, blómsveiga og leiðisljósa til að minnast fólks sem þar hefur farist í útafakstursslysum. Meira en fjórða hvert banaslys í álfunni verður við útafakstur. Varlega áætlað geti þannig hverskonar akreinastuðningur komið í veg fyrir meir en 2000 dauðaslys í Evrópu á hverju ári.

„Þá getur hraðavari forðað ökumönnum  frá afleiðingum þess að hafa yfirsést skilti um breyttan og lægri hámarkshraða. Slíkum skiltum hefur mjög fjölgað víða í Evrópu og sums staðar er í sífellu verið að breyta staðsetningum þeirra og hart tekið á því að hunsa fyrirmæli þeirra. Með upptöku punktakerfis fyrir umferðarlagabrot getur það haft slæmar afleiðingar fyrir ökumenn ef þeim yfirsést slíkt skilti og lenda í radargeisla eða hraðamyndavél lögreglu. Hraðavari er því mikilvægt hjálpartæki,“ segir van Ratingen.

Van Ratinger segir að nú á nýhöfnum áratugi aðgerða gegn umferðarslysum ættu bílaframleiðendur og veghaldarar í Evrópu að einhenda sér saman í það að gera fjölförnustu og mikilvægustu meginleiðir evrópska vegakerfisins læsilega fyrir bíla.  John Dawson segir að flest dauðaslysin í Evrópu verði á þessum vegum og helstu meginvegir álfunnar eru sem vígvöllur á stundum. „Við ættum að einbeita okkur að þessum vegum og að því að bæta og tryggja gæði merkinga og skilta nú á áratugi aðgerða gegn umferðarslysum, ekki tækninnar vegna heldur okkar sjálfra vegna. Nauðsynlegt er að kanna rækilega misræmi í vegmerkingum milli landa og ákveða hvort eða hversu mikið misræmi við getum sætt okkur við,“ sagði John Dawson.