Góður öryggisstaðall vegar er mikilvægasta slysavörnin

http://www.fib.is/myndir/Midjuskipt.jpg
Miðjuskipting í Svínahrauni - ein mesta slysavörnin sem framkvæmd hefur verið í íslenska vegakerfinu.

Gæði vegar (hár öryggisstaðall) vegur mun þyngra í umferðaröryggi en það að setja takmarkanir á umferðarhraðann. Með því að bæta vegi og nánasta umhverfi þeirra gæti Svíum tekist að draga um 40 prósent úr umferðarslysum. Þetta kemur fram í nýrri doktorsritgerð sænsks læknis við Karolinsku sjúkrastofnunina í Svíþjóð.

Helena Stigson varði doktorsritgerð sína sl. föstudag. Við vinnslu hennar rannsakaði hún alla þá þætti sem komu við sögu í 200 dauðaslysum á sænskum vegum. Skýrasta niðurstaðan er sú að það er öryggisstaðall veganna sem langmestu máli skipti í þessum slysum og olli því að mannslíf glötuðust. Það er það skýr niðurstaða Helenu að af einstökum aðgerðum sem mest og best skila sér í því að fækka dauðaslysum er sú, að aðskilja akstursstefnur. Slysa- og dauðahættan er mun minni á öruggum vegum með 90-110 km hámarkshraða en á varasömum vegum þar sem akstursstefnur eru ekki aðskildar. Lægri hámarkshraði á varasömu vegunum breytir þar litlu sem engu. http://www.fib.is/myndir/Kringlumbr-vegrid.jpg

En fyrir utan þá þýðingu sem ástand vegarins hefur á umferðaröryggið þá er það líka niðurstaða hins nýbakaða doktors að mjög mikilvægt sé fyrir umferðaröryggið að ökumenn séu í góðu ástandi og ekki með skerta akstursgetu af neyslu áfengis og/eða lyfja eða þreytu og syfju. Hún sýnir fram á að ef tækist með öllu að hindra akstur ökumanna með skerta getu af fyrrnefndu tagi, þá myndi dauðaslysum fækka um 25 prósent og það þótt að drukknir, dópaðir og dauðþreyttir ökumenn séu almennt einungis 0,2 prósent af þem sem eru í umferðinni hverju sinni.

Með því að bæta öryggi veganna og samtímis útrýma hinum drukknu/dópuðu/dauðþreyttu úr umferðinni telur Helena Stigson að fækka megi dauðaslysum á sænskum vegum um 65 prósent. Það myndi einfaldlega gerast ef allir ökumenn væru edrú og óþreyttir og með öryggisbeltin spennt í umferðinni og ækju í samræmi við reglur á vegum sem allir væru með aðskildum akstursstefnum. Í doktorsritgerð Helenu kemur fram að einungis 5 prósent slysanna sem rannsökuð voru, urðu við þessar aðstæður.

Tryggingafélagið Folksam var helsti styrktaraðili þessa doktorsverkefnis og eru forráðamenn félagsins ánægðir með bæði vinnubrögð og niðurstöður og telja að mikið megi byggja á þeim. Anders Kullgren rannsóknastjóri félagsins  segir að ljóst sé að leggja beri áherslu á að setja upp vegrið til að aðskilja akstursstefnur og halda áfram að þróa og innleiða alkóhóllása í bíla – búnað sem kemur í veg fyrir að drukkið fólk geti ræst bíla pg ekið af stað. Með þessu tvennu megi forða því að fjöldi mannslífa glatist.