Gömlu bílarnir hættulegir

Dönsk rannsókn sem gerð var á tengslum aldurs bíla og meiðslum ökumanna leiðir í ljós að því eldri sem bílarnir eru, þeim mun meir eykst hætta á meiðslum og örkumlum ef umferðarslys verður. Rannsóknin var gerð af danska tækniháskólanum DTU og styrkt af FDM, systurfélagi FÍB. Hún náði til rúmlega 80 þúsund ökumanna fólks- og sendibíla sem áttu þátt í umferðarslysum á árabilinu 2004 til 2010.

9,4 ára gamlir að meðaltali

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna greinilega að eftir því sem bílarnir eru nýrri, þeim mun minni verða meiðslin. Ef öll þau slys sem urðu árið 2010 hefðu átt sér stað í bílum af árgerð 2010 hefði einungis helmingur þeirra ökumanna sem létu lífið farist og alvarlega slasaðir hefðu orðið þriðjungi færri.  

„Skýrslan staðfestir að það er beint samhengi milli aldurs bílanna og hversu öruggir þeir eru. Þetta er sérstakt áhyggjuefni í Danmörku vegna þess hve gamlir bílar í Danmörku eru, eða 9,4 ára að meðaltali,“ segir Thomas Møller Thomsen framkvæmdastjóri FDM. Hann segir að aldurssamsetning bílaflotans sé þannig að 43 prósent  þeirra eru tíu ára og eldri. Þetta sé fyrst og fremst að kenna gríðarlega háum skráningargjöldum sem lögð eru á nýja bíla. Vegna þeirra sé óeðlilega dýrt að endurnýja bílinn og fá sér nýjan og mun öruggari bíl. Þessu verði að breyta og lækka beri skráningargjöld á öruggustu bílana.

Síðustu árin hafa nýir bílar orðið sífellt öruggari. Þessi jákvæða þróun er ekki síst að þakka því aðhaldi sem evrópsku bifreiðaeigendafélögin veita bílaframleiðendum með starfsemi EuroNCAP árekstursprófanna. Framkvæmdastjóri FDM segir að margir, ekki síst þeir sem ákvarða upphæðir skráningargjaldanna, hallist að því að horfa mest til þess hversu umhverfismildir bílarnir séu. Það sé bara ekki nóg. Það beri líka að huga að öryggi fólks. Því sé óskandi að ríkisstjórnin sem boðað hefur endurskoðun á skráningargjöldunum sjái til þess að almenningur hafi ekki bara efni á minnstu bílunum heldur líka þeim stærri og öruggari.