Götótt þekking á hjólbörðum

Ef marka má niðurstöður þekkingarprófs sem Michelin hefur gert meðal danskra bifreiðaeigenda er þekkingu þeirra á hjólbörðum ábóta vant. Fjórir af hverjum tíu vita ekki hver er lágmarks mynsturdýpt hjólbarða. Einungis 11 prósent vita að bestu (minnst slitnu) hjólbarðarnir skulu vera að aftan en ekki að framan. Gera má ráð fyrir því að ef samskonar könnun yrði gerð hér á landi yrði útkoman svipuð.

Þessi könnun Michelin leiðir sem fyrr segir í ljós að 40 prósent aðspurðra þekkja ekki lágmarkskröfu laganna um mynsturdýpt hjólbarðanna, sem er sú að mynsturdýptin má ekki verða minni en 1,6 mm. Þar sem sömu reglur um þetta gilda á öllu evrópska efnahagssvæðinu er lágmarks mynsturdýpt hér á landi líka 1,6 mm. Í þessari könnun Michelin reyndist hjólbarðaþekkingin misgóð eftir kynjum: Meir en helmingur aðspurðra kvenna svaraði rangt til um mynsturdýptina en 31 prósent karla.

Þegar svörin voru flokkuð eftir landsvæðum kom í ljós að íbúar Norður-Jótlands voru best að sér og 83 prósent aðspurðra þar vissu hina réttu mynsturdýpt. Verr gekk íbúum Mið-Jótlands en 45 prósent aðspurðra þar vissu hið rétta. Þá vissu 52 prósent aðspurðra Kaupmannahafnarbúa rétta svarið.

Lang flestir bílar nútímans eru framhjóladrifnir og yfirleitt slitna framhjólin því yfirleitt eilítið fljótar en afturhjólin, auk þess sem megin-hemlunarátakið er jafnan á framhjólum. Þegar leitast er við að jafna út sliti hjólbarða milli fram- og afturdekkjanna með því að setja framhjólin undir að aftan og öfugt, skal gæta þess að vinstra hjól að framan fari undir bílinn vinstra megin að aftan og hægra hjól undir hægra megin. Út af fyrir sig er það gott og blessað að jafna út slitinu á þennan hátt. Það er þó meginregla, þótt hún standi ekki í lögum eða reglugerðum, að minna slitna hjólbarða skal setja undir að aftan en ekki framan, eins og margir halda, og gildir þá einu hvort bíll er fram- eða afturhjóladrifinn. Í umræddri könnun Michelin þekktu einungis 11 prósent aðspurðra þessa meginreglu.

Ástæðan reglunnar er þessi: Með vaxandi sliti hjólbarða minnkar veggrip þeirra, sérstaklega þó í bleytu. Þegar meira slitnu dekkin eru undir bíl að framan er ökumaður mun fljótari að finna hvort og hvenær framhjólin taka að missa veggrip og hægir þá ferðina. Ef minna slitnu dekkin eru undir að aftan, finnur hann það mun seinna. Veggrip þeirra getur jafnvel verið farið veg allrar veraldar löngu á undan veggripinu að framan. Hættan á óviðráðanlegum afturendaslætti er því miklu meiri ef slitnu dekkin eru undir bílnum að aftan. Þessi hætta er ekki síst mikil á bílum sem eru án ESC skrikvarnar.

80 prósent þeirra sem svörðuðu könnuninni sögðust annaðhvort sjálfir mæla loftið í sumarhjólbörðunum eða fá það gert eftir að hafa sett þá undir bílinn eða fengið þá setta undir hann á hjólbarðaverkstæði. Einungis sex prósent sögðust mjög sjaldan eða aldrei mæla loftþrýstinginn.

Réttur loftþrýstingur í hjólbörðunum er mjög mikilvægur þáttur í því að hemlar og stýri virki rétt og svari rétt og eðlilega. Of lágur loftþrýstingur er algengasta ástæða þess að dekkin hætta að halda lofti og það „springur.“ Of lágur loftþrýstingur eykur núningsmótstöðuna, eldsneytiseyðslan eykst, dekki hitnar og jafvel eyðilegst. Það er því bæði skynsamlegt og nauðsynlegt að fylgjast reglulega með loftþrýstingnum í dekkjunum, t.d. einu sinni í hverjum mánuði. Félagsmenn FÍB geta fengið handhægan loftmæli á skrifstofu FÍB að Skúlagötu 19. Á mælinum er líka kvarði til að mæla mynsturdýptina. Þeir sem fylgjast vel með ástandi hjólbarðanna undir bílum sínum stuðla með því að betra öryggi í umferðinni. Jafnframt hafa þeir ótvíræðan éfnahagslegan ávinning af því, vegna þess að dekkin endast betur hjá þeim og bílarnir eyða minna eldsneyti.

Og þegar bíleigendur athuga loftþrýstingin í dekkjunum er rétt að minna á það að athuga um leið hvort nóg loft er í varadekkinu eða hvort viðgerðasettið í varadekkslausu bílunum er um borð í bílnum og í lagi. Í títtnefndri Michelin-könnun kom nefnilega í ljós að hvorki meira né minna en 42 prósent svarenda sögðust sjaldan eða aldrei athuga loftið í varadekkinu.

Engin ástæða er að ætla að íslenskir ökumenn séu hótinu skárri en þeir dönsku hvað þetta atriði varðar. Það er í það minnsta reynsla vegaþjónustumannanna hjá FÍB aðstoð að  þegar þeir eru kallaðir út til aðstoðar við dekkjaskipti, kemur í ljós að varadekkið er í hátt í helmingi tilfella loftlaust og í sumum tlfellum algerlega ónothæft.