Græn svæði og „gulir og rauðir“ bílar

http://www.fib.is/myndir/Umhverfismidi.jpg

1. mars 2007 tóku gildi í Þýskalandi ný umhverfislög um hreinna andrúmsloft. Í tengslum við þessi lög hafa í mörgum og stöðugt fleiri evrópskum og borgum verið skilgreind sérstök „græn“ svæði þar sem eingöngu umhverfismildir bílar mega aka og þar er sérstakur límmiði á bílinn nauðsynlegur. Miðarnir eru rauðir, gulir eða grænir og skulu gefa til kynna hversu umhverfismildur bíllinn er.

Þeir Íslendingar sem ætla að ferðast um Evrópu akandi á næstunni verða því að hyggja að því að hafa límmiðann til staðar á bílnum og forðast að aka inn á „grænt“ borgarsvæði á bíl með gulum eða rauðum límmiða.

Þegar límmiði er keyptur þarf að framvísa skráningarskírteini bílsins eða framleiðslunúmeri og fæst þá afhentur límmiði með lit sem er í samræmi við þann mengunarflokk sem bíllinn tilheyrir. Miðarnir fást á öllum starfsstöðvum skoðunar- og vottunarstofnunarinnar TÜV í Þýskalandi og á öllum DEKRA-verkstæðum og kosta yfirleitt 5-10 evrur. Þeim sem verður það á að aka inn í grænt svæði á bíl sem ekki er „grænn“ eiga á hættu að verða sektaðir um 40 evrur.

Þann 1. janúar sl. tóku gildi reglur um græn svæði í Berlín, Hannover og Köln og fleiri borgir eru að feta sömu slóð. Yfirleitt er gefinn aðlögunartími til 1. janúar 2010. Þangað til má með takmörkunum aka á „rauðum“ og „gulum“ bílum innan grænna svæða en algert skilyrði er að bílarnir séu umhverfismerktir.

Hér er svo að lokum listi yfir flestar þær borgir í Þýskalandi sem hyggjast skilgreina umhverfissvæði innan sinna vébanda og hvenær þau taka gildi.

01.01.2008 Berlin, Hannover, Köln
01.03.2008 Ilsfeld, Leonberg, Ludwigsburg, Mannheim, Schwäbisch-Gmünd, Stuttgart, Tübingen
01.07.2008 Bochum
01.10.2008 München
Á árinu 2008 Augsburg, Dortmund, Düsseldorf, Essen, Frankfurt/Main, Gera, Mühlacker, Pforzheim, Regensburg, Reutlingen
01.01.2009 Nürnberg, Herrenberg
01.01.2010 Freiburg (Breisgau)
Á árinu 2010 Braunschweig, Darmstadt, Dresden, Heidelberg, Karlsruhe, Leipzig, Magdeburg, Neu-Ulm, Pleidelsheim, Ulm

ATH! Dagsetningarnar geta breyst!