Gríðalega mikil aukning í umferðinni á Hringveginum

Umferðin á Hringveginum jókst um tæp 14 prósent í nýliðnum marsmánuði. Það vekur athygli hversu mikil aukningin er í ljósi þess að fyrir ári síðan jókst umferðin enn meira í mars.

Frá áramótum hefur umferðin á Hringvegi aukist um 14 prósent sem er gríðarlega mikil aukning. Þetta kemur fram í upplýsingum frá Vegagerðinni sem voru að koma út.

Milli mánaða 2016 og 2017
Umferðin jókst um tæp 14% í nýliðnum marsmánuði miðað við sama mánuð á síðasta ári. Þessi mikla aukning kemur í kjölfar enn meiri aukningar, eða rúmlega 20% aukningar, milli sömu mánaða á síðasta ári.

Mest jókst umferðin um Suðurland eða um tæp 24% en minnst var aukningin um Norðurland eða um 0,4%.

Þessi hækkun nú er athygliverð þar sem páskar voru í marsmánuði á síðasta ári en verða nú í apríl þar af leiðandi er það ekki páskaumferðin sem veldur þessari miklu aukningu nú.

Frá áramótum milli áranna 2016 og 2017
Umferðin hefur nú aukist um 14% frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári. Aukningin hefur aðeins mælst einu sinni áður meiri en það var á síðasta ári.  Það er því athyglivert að þessi staða skuli vera svona í kjölfarið á metaukningu frá árinu á undan.

Umferðin hefur aukist mest, frá áramótum, á Austurlandi eða um rúmlega 27% en minnst á Norðurlandi eða um rúmlega 8%.

Umferð eftir vikudögum frá áramótum milli áranna 2016 og 2017
Frá áramótum hefur umferðin aukist alla vikudaga en mest á fimmtudögum eða um 17,5% en minnst hefur aukningin verið á miðvikudögum eða sem nemur rúmlega 9%. Eins og venja er til á þjóðvegum úti á landi er mest ekið á föstudögum en minnst á laugardögum.

Talnaefni