Gríðarleg aukning í umferðinni á Hringvegi

Gríðalega mikil aukning varð í umferðinni í september miðað við árið áður, en umferðin á Hringvegi jókst um tæp 18 prósent að því fram kemur í tölum frá Vegagerðinni. Mest jókst hún á Austurlandi, eða um 256 prósent í Hvalsnesi í Lóni og um 212 prósent á Mýrdalssandi. Umferðin náði eigi að síður ekki því sem hún var í september 2019. 

Umferðin, yfir 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi, jókst gríðarlega mikið á milli september mánaða 2020 og 2021 eða um 17,6%.  Þessi mikla aukning dugði þó ekki til að slá nein met þar sem umferðin á síðasta ári hafði dregist mikið saman miðað við árið þar á undan. Mest jókst umferð um Austurland eða um 83,3% en minnst á og í grennd við höfuðborgarsvæðið eða um 5,3%.

Met var hins vegar slegið í aukningu umferðar á milli einstakra talningastaða en talningastaður við Hvalsnes í Lóni á Austurlandi sýndi tæplega 256% aukningu á milli september mánaða. Næstur kom teljari á Mýrdalssandi en hann sýndi rúmlaega 212% aukningu.  Minnst jókst umferð um teljara við Úlfarsfell (milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar) eða tæplega 3% aukningu.

Nú hefur umferðin aukist um 10,8% frá áramótum og hefur slík aukning aðeins einu sinni áður verið meiri en það var á milli áranna 2015 og 2016. Frá áramótum hefur umferð á sunnudögum hefur aukist mest eða um 14% en minnst á fimmtudögum eða rétt rúmlega 8%.

Mest er ekið á föstudögum og minnst á laugardögum, það sem af er ári. Áfram stefnir í að aukning umferðar í ár verði um 13% miðað við árið 2020, en hún yrði samt sem áður rúmlega 2% minni en árið 2019, gangi þessi spá eftir.

Fram kemur að við mat á umræddum umferðartölum þarf að hafa í huga að umferð dróst mikið saman árið 2020.