Gríðarleg aukning umferðar á Hringveginum í júní

Umferðin á Hringveginum í júní jókst um tæp 13 prósent sem er gríðarlega mikil aukning og sú mesta milli júnímánaða. Þetta kemur fram í samantekt Vegagerðarinnar.

Umferðin í ár hefur aukist um 12,5 prósent og útlit er fyrir að í heild aukist umferðin í ár um 7-6 prósent. Það yrði þó einungis um helmingur þess sem umferðin jókst í fyrra. Eigi að síður yrði það næst mesta aukning milli ára frá því þessi samantekt hófst árið 2005.

Umferðin, yfir 16 lykilteljara á Hringvegi, í júní jókst gríðarlega mikið eða um 12,7% miðað við sama mánuð á síðasta ári.  Þetta er mesta aukning milli júní mánaða frá upphafi samantektar (2005). Mest jókst umferðin um Suðurland eða um 15% en minnst um Norðurland eða um 7%. 

Þrátt fyrir þessa miklu aukningu í júní leit, lengi vel, út fyrir að hún myndi verða enn meiri. Munar þar mestu um að umferðaraukningin á Suðurlandi varð ekki eins mikil og búist var við, þó svo að hún sé ærin.

Hvað einstaka talningarstaði varðar jókst umferðin mest um talningasnið vestan Hvolsvallar eða um 15,8%.  Þetta er auðvitað mikil aukning en til samanburðar jókst umferðin á síðasta ári um 18,4% á sama stað í júní mánuði og enn meira um talningasnið á Mýrdalssandi eða um 30%. 

Það talningasnið sem skilaði minnstri aukningu var talningasnið við Gljúfurá, á Norðurlandi, eða 5% aukningu.

Það vekur athygli að umferðin, yfir talningasnið á Austurlandi, hafði áður aukist um 14 – 52% í mánuðunum janúar til maí eykst núna um 8,7%.  

Frá áramótum milli 2016 og 2017
Nú hefur umferðin, um áður nefnd talningasnið, aukist um 12,5%, frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári. Þetta er næst mesta aukning miðað við árstíma frá upphafi samantektar.  Aðeins á síðasta ári hefur umferðin aukist meira á milli ára miðað við árstíma en þá var aukningin 13,4%.

Umferðin hefur aukist mest um Austurland eða 19,7% en minnst hefur aukningin verið um Norður- og Vesturland með um 10,5% aukningu, hvort svæði.

Í samantektinni kemur m.a. fram að frá ármótum hefur umferð aukist hlutfallslega mest á þriðjudögum eða um 15% en minnst á mánudögum eða um 11%. Mest er ekið á föstudögum en minnst á mánudögum og þriðjudögum. Það vekur athygli hér að umferðin er nú mun jafnari frá mánudegi til fimmtudags miðað við síðasta ár.

Nú eru horfur á því að umferðin geti aukist um 7 – 8 % miðað við árið 2016.  Ef af verður yrði það tæplega tvöfalt minni aukning en varð í sömu talningasniðum milli áranna 2015 og 2016 þ.a.l. lítur út fyrir heldur minni vöxt í umferðinni nú í ár miðað við síðasta ár.

En til að gefa betri mynd af áætlaðri aukningu þá yrði hún engu að síður sú önnur mesta í umræddum mælisniðum frá upphafi samantektar.  Þetta segir líka eitthvað um það hverskonar aukning varð á síðasta ári.