Gríðarlegar stöðugjaldahækkanir Isavia í skjóli einokunar

Frá Keflavíkurflugvelli. Mynd: Petur P. Johnson.
Frá Keflavíkurflugvelli. Mynd: Petur P. Johnson.

Gríðarleg hækkun Isavia á bílastæðagjöldum við Leifsstöð er mjög ámælisverð fyrir ýmissa hluta sakir. Isavia, áður Flugmálastjórn, er opinber stofnun og þar með í eigu og þjónustu íslensks almennings, en dulbúin sem opinbert hlutafélag – fyrirtæki. Dulbúningurinn veitir stjórnendum Isavia skjól til að ráðskast með almenningseign eins og Keflavíkurflugvöll og Leifsstöð nokkurnveginn að geðþótta.

Isavia er einokunaraðili. Það ræður yfir bílastæðunum umhverfis flugstöðina og það ræður yfir flugstöðinni að vild sinni, hvaða þjónusta er veitt innan- og utandyra, hverjir veita hana og hvað hún kostar. Og nú hefur Isavia einu sinni enn ákveðið að hækka mjög bílastæðagjöldin enda þótt sókn í stæðin hafi stóraukist frá bankahruni og nýting þeirra stórlega batnað. Að öllu eðlilegu ætti þaö að hafa leitt til verðlækkunar en þar sem almenn markaðslögmál ná sjaldnast yfir einokunaraðila þá stórhækkar Isavia bílastæðagjöldin aftur og aftur og skýrir það nú með kostnaði við nýframkvæmdir og endurbætur á bílastæðunum. Þær framkvæmdir felast aðallega í sameina núverandi um 300 starfsmannabílastæði almennum stæðum og gera ný stæði fyrir starfsfólkið annarsstaðar. Upplýsingafulltrúi einokunarfyrirbærisins orðaði þetta svo í fréttaviðtali við Sjónvarpið: .... „Þannig að við þurftum að hækka tekjurnar til að geta átt fyrir framkvæmdum.“

Upplýsingafulltrúinn freistar þess ennfremur að réttlæta hækkanirnar nú með því að miklar stækkunarframkvæmdir standi yfir í Leifsstöð vegna mikils og stórvaxandi fjölda ferðamanna til landsins. Tekin væru lán til þeirra og mátti skilja fulltrúann svo, að ekki yrði tekið lán vegna bílastæðaframkvæmdanna. Því skorti fé til þeirra og til að hægt sé að ráðast í þær þurfi meira fé. Þessvegna þurfii að hækka bílastæðagjöldin.

Fréttamaður spurði hann þá hvort eðlilegt væri að fjölga bílastæðum vegna fjölgunar farþega þegar erlendir ferðamenn nota ekki bílastæði. Svarið var eftirfarandi: „Íslendingar eru núna orðnir fleiri en á árinu 2007, eða verða það á næsta ári, þannig að það er metfjöldi Íslendinga líka.“

Þar með varð það ljóst að einokunarfyrirbærið Isavia er meðvitað að vega að íslenskum ferðalöngum, sjálfum umbjóðendum sínum og eigendum flugstöðvarinnar.  Einokunarfyrirbærið sækir með sívaxandi þunga í vasa þeirra í krafti einokunaraðstöðunnar á flugstöðvarsvæðinu með hinum nýju ofurhækkunum sem taka munu gildi 1. apríl nk.  Enginn annar aðili á né má eiga í neinskonar samkeppni við Isavia um rekstur bílastæða við flugstöðina. Þessi framkoma gagnvart almenningi er vægt sagt ámælisverð.

Kannski nú sé tækifæri fyrir duglega framkvæmdaaðila að gera bílastæði skammt utan yfirráðasvæðis Isavia við Leifsstöð og rjúfa þannig einokunarmúrinn?