Háar sektir í Evrópu fyrir að tala í síma undir stýri

http://www.fib.is/myndir/Simatal.jpg


Ástæða er að vara fólk undir stýri við því að taka í farsíma í akstri, bæði vegna þess hve varasamt og líka dýrt, sérstaklega þó utan landsteina Íslands. Flest Evrópulönd hafa undanfarna mánuði hækkað sektir verulega fyrir að tala í farsíma í akstri.  Í Portúgal getur sekt fyrir slíkt komist upp í 56.500 ísl. kr.

Sektir og refsingar fyrir að tala í farsíma í akstri hafa verið hertar í Evrópulöndunum undanfarna mánuði og sums staðar hafa þær verið tvöfaldaðar. Evrópudeild FIA, alþjóðasamtaka bifreiðaeigendafélaga hefur alveg nýlega tekið saman yfirlit yfir hvað það kostar að tala í farsímann í akstri í  Evrópulöndunum og af þeim lista er rétt og skylt að vara þá sem ætlað að ferðast akandi í álfunni í sumar við að nota farsímann meðan ekið er.

Meðal þeirra landa sem tvöfaldað hafa sektir fyrir að tala í farsíma í akstri eru Bretland. Þar var algengasta sekt í fyrra kr. 4.150 en er nú 8.300. Í fyrra var algengasta sektin í Belgíu kr. 4.700 en er nú 9.400. Portúgal trónir á toppnum meðal þeirra dýrustu. Þar getur sektin numið hátt í sextíu þúsund krónum. Sömuleiðis er Spánn dýr í þessu tilliti. Algeng sekt þar getur numið hátt í 30 þúsund krónum. Og ekki er Noregur heldur ódýr – algeng sekt þar er hátt í 16 þúsund krónur. Svíþjóð er eina landið í Evrópu sem ekki sektar ökumenn fyrir að tala í farsíma undir stýri né beitir öðrum refsingum. Þýskaland sektar hinsvegar ökumenn fyrir þetta brot og ekki nóg með það, líka reiðhjólafólk ef það talar í síma á ferð. Í mörgum landanna þar sem sektað er fyrir talsímatal getur lögregla innheimt sektargreiðslur á staðnum. Sumsstaðar dugar það ekki einusinni til að sleppa undan sekt þótt bílinn standi kyrr. Þar er það saknæmt að sitja undir stýri og tala í farsíma.

Víðast hvar sleppur fólk við sektir noti það handfrjálsan búnað og sé þannig ekki með aðra höndina upptekna við að halda símtóli upp að eyranu í akstri. En símtal á það til að dreifa athyglinni og einbeitingunni frá akstrinum og telji lögregla sig sjá eitthvað athugavert við ökulagið þegar ökumaður talar í síma við hjálp af handfrjálsum búnaði, þá hefur hún heimild til að sekta ökumanninn eins og hann haldi á símanum í hendinni.  Þessvegna skal hér eindregið ráðið frá því að tala í  farsíma - ekki einu sinni handfrjálsan síma - á rauðu ljósi þar sem lögreglumaður er sýnilegur.


Sektarupphæðir eftir löndum

Austurríki –       frá kr. 2.350
Belgía –             frá kr 9.400
Tékkland –         frá kr. 3.300
Danmork –         frá kr. 6.340
Finnland –         frá kr. 4.700
Frakkland –       frá kr. 3.300
Þýskaland –      frá kr. 3.800 (bíll)
Þýskaland –      fra kr. 2.350 (reiðhjól)
Grikkland –       frá kr. 5.620
Ungverjaland – allt að kr 11.800
Holland –          frá kr. 13.300
Ítalía –               frá kr 6.440
Luxembourg –   frá kr. 6.950
Noregur –          frá kr. 15.840
Pólland –          frá kr. 5.620
Portúgal –         allt að kr. 56.500
Rússland –        frá kr. 200
Slóvakía –         frá kr. 5.000
Spánn –            allt að kr. 28.300
Sviss –              frá kr. 6.340
Tyrkland –         frá kr. 2.900
Bretland –         frá kr. 8.300
http://www.fib.is/myndir/kjaftarisima2.jpghttp://www.fib.is/myndir/Kjaftarisima.jpg