Hækkaður hámarkshraði kallaði ekki á fleiri slys

-Lækkaður hámarkshraði hefur í för með sér færri slys- fullyrða margir án þess að depla auga, þar á meðal sænsk umferðaryfirvöld sem hyggjast lækka hámarkshraða víða í landi sínu úr 90 í 80 í lok þessa árs. -Hraðinn drepur- auglýsa íslensk umferðaryfirvöld. Báðar fullyrðingarnar lýsa þeirri meintu vissu margra að beint samband sé milli fjölda slysa og hámarkshraða. Lækki hraðinn, fækki slysum. En er þetta svona einfalt? Svo er alls ekki víst.

Í Utah í Bandaríkjunum ákváðu yfirvöld að gera hið gagnstæða og hækka hámarkshraðamörk á hraðbrautum ríkisins. Komið hefur í ljós að slysum fjölgaði ekkert heldur hélst slysatíðnin óbreytt. Breytingin breytti semsagt engu.

Hraðbrautir og þjóðvegir í Utah liggja um stórbrotið landslag en leiðir eru víða langar milli staða og vegirnir beinir þannig að ökumenn geta ekið klukkustundum saman án þess jafvel að þurfa að snúa stýrinu hið minnsta. Fyrir utan landslagið getur ferðalagið því orðið ansi tilbreytingarlítið og hætta á syfju, Til að vega upp á móti því hefur tilhneiging ökumanna verið sú að slá lítilsháttar í klárinn og aka hraðar en gamla hámarkshraðamarkið 75 mílur (120 km) á klst.  

Umferðaryfirvöld í Utah hafa um langt skeið fylgst með raunverulegum umferðarhraða á þessum vegum og komist að því að langflestir óku vel yfir gamla hámarkshraðamarkinu og meðalhraðinn var orðinn 81-85 mílur (130-137 km) á klst. Í stað þess að leggjast í hernað gegn umferðinni í því skyni að lækka hraðann var ákveðið að færa hámarkshraðamarkið upp til samræmis við raunhraðann á vegunum enda varð ekki séð að slysum hefði fjölgað í takti við stígandi raunhraða. Og hin formlega hámarkshraðabreyting breytti heldur engu hvað slysatiðni varðar. En hún hafði á hinn bóginn þau áhrif að raunhraðinn virtist lækka lítilsháttar. Sjá frétt um málið í Deseret News sem gefið er út í Salt Lake City.