Hækkanir þegar farnar að koma fram

Hækkanir á útsöluverði nýrra bifreiða eru þegar farnar að koma fram en þær má að mestu rekja til breytinga á mengunarstaðli vegna útblásturs bíla sem tóku gildi í Evrópu þann 1. september sl. Um er að ræða svonefndan WLTP-staðal sem felur í sér hertar reglur um losunarmælingar á útblæstri bíla.

Þetta hefur það í för með sér að skráð losun koltvísýrings frá bílum hækkar um 10-40% frá því sem verið hefur samkvæmt svonefndri NEDC losunarmælingu að því fram kom í skýrslu um endurskoðun skattlagningar ökutækja og eldsneytis snemma á þessu ári. Þetta kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins um málið en ennfremur hefur FÍB fjallað um sama mál á síðustu mánuðum.

Eins og fram kemur í Morgunblaðinu hefur FÍB og fleiri bent á að innleiðing nýja mengunarstaðalsins geti valdið hækkun á bílasköttum eins og raunin hefur orðið á. Stjórnvöld víðast hvar í Evrópu gerðu strax í sumar ráðstafanir til að draga úr slíkum hækkunum. Má í því sambandi benda á Svía sem frestuðu ákvörðunum um hækkanir um eitt ár til að skoða málin nánar ofan í kjölinn.

Breytingar á vörugjaldi ökutækja í frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra, sem er til meðferðar á Alþingi, tekur hins vegar ekki gildi fyrr en 1. janúar verði það samþykkt í núverandi mynd. Markmiðið er að koma í veg fyrir að ósamræmi verði í skattlagningu ökutækja vegna umræddra breytinga á mælingum á útblæstri bíla

Bílgreinasambandið rökstyður í umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis hvernig skráningar bæði á WLTP- og NEDC-gildi fyrir koltvísýringslosun geta leitt til þess að bifreiðar færast í hærri vörugjaldaflokka. Þar segir að nú þegar eru komnar fram umtalsverðar hækkanir á bílverði þar sem allar bifreiðar koma í dag með bæði NEDC afturreiknuðu og WTLP gildum. Nánast án undantekningar eru bílar að hækka um tollflokk vegna mælinganna. Verðhækkanir vegna breyttra mæliaðferða eru því nú í október og nóvember 2018 að koma að fullum þunga inn,“ segir í umsögn Bílgreinasambandsins frá 1. nóvember.

„Frá 1. september hefur krónan að auki veikst um 10% gagnvart evru og er því ljóst að verðhækkanir á nýjum bílum á tímabilinu 1. september til loka nóvember verða umtalsverðar,“ segir þar enn fremur.

Vill Bílgreinasambandið að brugðist verði hratt við „og bráðabirgðalög sett á til áramóta þar sem mikið ójafnvægi mun skapast á bílamarkaðinum þar til ný lög um vörugjöld taka gildi um næstu áramót. Ljóst er að hækkun á bílverði mun [hafa] neikvæð áhrif á verðbólguhraða, eins og þegar er komið fram, en um leið er ljóst að bílasala mun verulega dragast saman á sama tímabili þar sem verðlag hefur rokið upp,“ segir þar.

Þá kemur fram í Morgunblaðinu að í umsögn Tollstjóra til þingnefndarinnar segir að talið sé að fram að áramótum verði a.m.k. 2-4 þúsund bifreiðar fluttar til landsins.

FÍB fagnar frumvarpinu í umsögn til þingsins en segir ljóst að innleiðing WLTP-staðalsins á árunum 2017-2020 hafi haft og muni hafa töluverð áhrif á gjaldflokkun margra ökutækja miðað við núgildandi lög. „Þvert á yfirlýsingar framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins þá virðist óhjákvæmilegt að bílar muni sveiflast í verði vegna nýja staðalsins. Kveðst félagið vona að hægt verði að tryggja samræmingu álagningar bifreiðagjalds með þeim breytingum sem boðaðar eru í frumvarpinu.