Hækkun á bensíni dregin til baka af öllum olíufélögunum

Í gær lækkaði Skeljungur verð á bensíni um 12,50 krónur á hvern lítra. Á heimasíðu félagsins segir m.a.: Forsvarsmönnum Skeljungs þykir miður að komið hafi til ótímabærrar hækkunar á útsöluverði bensíns hjá fyrirtækinu. Mistökin má rekja til skjótra breytinga á tollaumhverfinu og óvissu um framkvæmd breytinganna hjá öllum málsaðilum. Leitað verður allra leiða til þess að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki.

Í kjölfar þessara verðbreytinga Skeljungs lækkuðu hin olíufélögin einnig sín verð á bensíni um 12,5 krónur á lítra.

Allt er þetta mál með ólíkindum.  Fljótlega í kjölfar verðhækkunarinnar komu fram athugasemdir frá fulltrúa Neytendastofu í fjölmiðlum um það að kanna þyrfti nánar lögmæti þess gjörnings að hækka bensínverð með tilvísun í ný lög um hækkun vörugjalds.  Þann 4. Júní sl. kom fram í viðtali við tollstjóra í Morgunblaðinu að hækkun vörugjalds hefði ekki áhrif á verð bensíns sem innflutt var fyrir lagabreytinguna.  Hækkunin legðist á innflutt bensín sem kæmi til landsins eftir 28. maí 2009. Gefur þetta til kynna að neytendur og aðrir kaupendur eldsneytis á Íslandi hafi verið hlunnfarnir af olíufélögunum í kjölfar lagabreytingar sem ekki var til þess fallin að hafa áhrif svo skjótt sem raun varð á útsöluverð bensíns. 

 

FÍB hefur komið kvörtun vegna rökstudds gruns um brot á samkeppnislögum til Samkeppniseftirlitsins. Hækkun olíufélaganna á bensínverði vekur upp samkeppnisréttarlegar spurningar. Mikil hækkun allra söluaðila á vöru sem á sér stað nánast samtímis og verður án þess að hlutlægar ytri forsendur, á borð við vörugjöld eða hækkun heimsmarkaðsverðs eigi sér stað rennir stoðum undir að hér sé hugsanlega um einhvers konar samkeppnishamlandi samstilltar aðgerðir að ræða (sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005).

Sum olíufélögin segjast bæta neytendum upp mismuninn með endurgreiðslu í gegnum greiðslumiðla en forvarsmenn N1 segjast ætla að „gefa“ ofteknu krónurnar til góðgerðarmála. Hvernig getur fyrirtæki gefið peninga sem það á ekki?