Hafa kostað skattborgara 500 milljónir

Önnur framhaldsumræða um lagafrumvarp fjármálaráðherra um heimild til að fjármagna gerð Vaðlaheiðarganga hófst á alþingi fyrir stundu.

Vaðlaheiðargöngin voru upphaflega kynnt sem einkaframkvæmd sem alfarið skyldi standa undir sér með veggjöldum. Sýnt hefur verið fram á að það tal var allt meira og minna út í loftið. Það munu þau ekki gera miðað við gefnar forsendur. Kostnaðurinn við þau mun að mestu ef ekki öllu leyti falla á ríkissjóð – skattborgara og framkvæmdin því ekkert annað en ríkisframkvæmd frá upphafi til enda.

Það hefur hann gert hingað til.

Sannleikurinn er nefnilega sá að sá kostnaður sem hingað til hefur orðið vegna þessa gangamáls er nú þegar orðinn um 500 milljónir króna. Hann hefur allur fallið á ríkið án þess að nokkrar samþykktir eða heimildir hafi nokkru sinni fengist.

Þetta hefur gerst með milligöngu Vegagerðarinnar þannig að Vegagerðin hefur verið látin kaupa ýmsa vinnu og gögn sem Greið leið hafði látið vinna, m.a. jarðfræðirannsókn á Vaðlaheiðinni og vegstæðinu fyrirhugaða. Þetta var gert á þann hátt að undirbúningsfélag Vaðlaheiðarganga; Greið leið, var látið renna inn í nýtt hlutafélag; Vaðlaheiðargöng ehf sem er í rétt rúmri helmingseigu Vegagerðarinnar og tæplega helmingseigu Greiðrar leiðar.

Í þeirri fjárþurrð ríkissjóðs sem nú er, eru 500 milljónir veruleg upphæð. Fyrir 500 milljónir mætti margt gera í viðhaldi vegakerfisins sem nú drabbast óðum niður vegna fjárskorts. Tiltölulega ódýr aðgerð en þó mikilvæg í öryggislegu tilliti er að mála mið- og kantlínur vega með bundnu slitlagi sem nú eru sem óðast að hverfa. Fram hefur komið í fréttum að Vegagerðin reyni að viðhalda allra nauðsynlegustu yfirborðsmerkingum vega og m.a. hafi neyðst til að mjókka miðlínur til að spara málninguna og sleppa kantlínunum. Fyrir 500 milljónir mætti komast ansi langt með sómasamlegar yfirborðsmerkingar þjóðveganna.