Hagnaður tryggingafélaganna var 35% af iðgjaldatekjum 2021

Heildariðgjöld tryggingafélaganna námu 57,7 milljörðum króna árið 2021. Hagnaður þeirra það sama ár var 28,1 milljarður króna, eða 49% af iðgjöldunum.

Áhugaverðar upplýsingar um afkomu tryggingafélaganna koma fram á Alþingi þann 13. desember í í svari við fyrirspurn Ágústs Bjarna Garðarssonar þingmanns Framsóknarflokksins. Þar kemur til dæmis fram að iðgjöld af ökutækjatryggingum voru 40,3 milljarðar króna árið 2021, eða 50% af heildar iðgjaldatekjum þeirra.

Fram kemur á vef Alþingis að iðgjöld vegna einstaklinga og heimila námu 57,7 milljörðum króna árið 2021. Um er að ræða bílatryggingar, fjölskyldu- og heimilistryggingar, húseigendatryggingar og líf- og sjúkdómatryggingar. Hlutur iðgjalda af ökutækjum nam 70% af þessum tryggingum. 

Samt fullyrða tryggingafélögin ár eftir ár að iðgjöld ökutækjatrygginga standi ekki undir kostnaði. Hvernig geta þau þá hagnast svona? Og ef tryggingafélög hagnast ekki á iðgjaldatekjum, hvers vegna eru þau svo eftirsótt að bankar keppast við að sameinast þeim?

Auðvitað tapa tryggingafélög ekki á ökutækjatryggingum. Það er þvættingur. Þær eru aðal mjólkurkýr tryggingafélaganna. Það sem tryggingafélögin gera til að láta þetta líta illa út er að í hvert sinn sem tjón er tilkynnt, þá áætla þau tjónakostnaðinn mjög ríflega. Sú ríflega áætlun er talin sem kostnaður þó svo tjónið sé ekki gert upp fyrr en mörgum árum seinna og þá einatt fyrir minni pening en áætlað var. Í millitíðinni ávaxta tryggingafélögin hið áætlaða tjón og byggja þannig upp sjóðseignir sínar. Svo sannarlega hagnast þau á tryggingastarfseminni og í raun mest á ökutækjatryggingum vegna þess að af iðgjöldum þeirra er mest lagt í bótasjóðina.

Hvergi í heiminum gengur tekjumódel tryggingafélaga út á að iðgjöld ein og sér skili hagnaði, heldur að ávöxtun fjármuna geri það. Tryggingafélög eru fjármálastofnanir og rekstur þeirra gengur út á að ávaxta oftekin iðgjöld. Hagnaður ársins 2021 upp á 28 milljarða króna segir allt sem segja þarf í þeim efnum.

Í nágrannalöndum okkar leyfist tryggingafélögum ekki að sanka endalaust að sér fjármunum viðskiptavina til að græða á þeim. Reglulega er tekið til í bótasjóðunum og þeir greiddir út í formi lækkunar iðgjalda. Hér á landi er þessu öfugt farið. Hér hækka iðgjöld umfram verðlagsvísitölu og bótasjóðirnir eru notaðir til að greiða eigendum tryggingafélaganna arð.