Haldex fjórhjóladrif fyrir Hyundai og Kia

http://www.fib.is/myndir/Haldex.jpg
Sænska fyrirtækið Haldex í Landskrona í Svíþjóð hefur fengið pöntun frá Hyundai-KIA í Kóreu á fjórhjóladrifsbúnaði í frumgerð nýs bíls. Sænskum bílablaðamönnum finnst hér hafa hlaupið á snærið hjá löndum sínum í Landskrona. Nú séu Haldex-menn komnir með fótinn milli stafs og hurðar í Kóreu og meira hljóti að fylgja í kjölfarið. Til þessa hafa kóreskir fjórhjóladrifnir bílar verið með japönsk fjórhjóladrifskerfi.

Talsmaður Haldex segir við Auto Motor & Sport í Svíþjóð að samningurinn um kerfið í þessa umræddu frumgerð sé mikilvægur því hann sé við enn einn stóran bílaframleiðanda og jafnframt þann fyrsta í Asíu.  Hyundai-KIA er einn stærsti bílaframleiðandinn í Kóreu og rekur auk þess verksmiðjur utan Kóreu, m.a. í Slóvakíu í hjarta Evrópu.

Meðal bílaframleiðenda sem hafa Haldex drifkerfi í bílum sínum eru Volkswagen samsteypan (VW, Audi, Bugatti, Seat og Skoda), Volvo, Land Rover og Ford. Þá er Haldex kerfi væntanlegt í GM bíla (Saab, Opel, Chevrolet, Cadillac o.fl.).