Hálfsannleikur og ósannindi

Óneitanlega er það athyglisvert að það skuli vera upplýsingafulltrúi ríkishlutafélagsins Isavia (eitt hlutabréf í vörslu fjármálaráðherra) sem tekur til varna vegna ósvífinnar hækkunar stöðugjalda á bílastæðum við Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli en ekki rekstraraðili stæðanna. En auðvitað er það Isavia ohf, áður Flugmálastjórn, (sem nú þykist vera fyrirtæki á samkeppnismarkaði) sem hefur einokunarforræði bílastæðanna og tekur til sín bróðurpart þeirra stöðugjalda sem bifreiðaeigendur þurfa að greiða (67%). Afgangurinn rennur til rekstraraðilans samkvæmt heimildum FÍB.

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Isavia, rekstraraðila flugvalla á landinu, var í viðtali við vefritið Pressuna í gær og fleiri fjölmiðla vegna þessa máls. Í Pressunni reynir hún með hártogunum að halda því fram að hækkun gjaldanna fari ekki fram úr vísitöluþróuninni sl fimm ár (27%). Raunveruleikinn er allt annar og í samtali við fréttavef FÍB í gær sagði rekstrarstjóri Icepark að hækkunin væri því sem næst 41%.

Hvers vegna þetta misræmi? Jú, vegna þess að gjaldskráin er sett upp þannig að hún sé flókin og ógagnsæ og til að ósvífnir blaðurfulltrúar geti haldið fram að hækkunin sé í samræmi við vísitöluhækkanir sl. fimm ára sem alls ekki er raunin. Lang algengasti stöðutími einkabíla við Leifsstöð er hafður dýrastur. Þau gjöld, miðað við eldri gjaldskrána, hafa hækkað um tæp 50%. Það er óhrekjanlegt. Síðan eftir því sem vikurnar líða verður hver dagur ódýrari. Þetta má auðveldlega lesa úr gjaldskránni. Í Pressuviðtalinu fyrrnefnda treystir upplýsingafulltrúinn sér ekki til að afneita þessari staðreynd því hún  segir svona eins og í framhjáhlaupi að ….„einhver tilfelli finnist þegar gjald hafi hækkað um 50%.“

Með ítrustu sanngirni mætti kannski kalla þennan málflutning spindoktorsins hjá Isavia hálfsannleika þótt önnur orð væru betur við hæfi. Þau orð eiga hins vegar ágætlega við fullyrðingu hennar um að ekki sé rétt af FÍB að tala um einokun Isavia því aðrir aðilar bjóði upp á bílastæði á flugvöllum á Íslandi, til dæmis Flughótel.

Bergþóra Sigurjónsdóttir hótelstjóri Flughótels í Keflavík sagði í samtali við fréttavef FÍB fyrir stundu að hótelið reki enga bílastæðaþjónustu við Leifsstöð.

Þá reynist sú fullyrðing bæði upplýsingafulltrúa Isavia og rekstrarstjóra Icepark, umsjónaraðila bílastæðanna við Leifsstöð, um að hækkun stöðugjaldanna 15. apríl sé sú fyrsta síðan 2006, einnig ósönn. Gjöldin voru hækkuð í ársbyrjun 2008 úr 600 krónum fyrsti dagur í langtímastæði, í 630 kr. Þetta má staðreyna í afritum af heimasíðum Isavia.

Alvarlegt er einnig hvernig að hækkuninni miklu þann 15. apríl var staðið, en hún var hvergi kynnt svo vitað sé, heldur skellt á fyrirvaralaust. Og ekki var einusinni haft fyrir því að segja fólki sem hringdi degi áður en hækkuninni var skellt á, að hún stæði fyrir dyrum. Þegar FÍB spurðist fyrir um málið hjá innanríkisráðherra í gær var starfsmönnum hans ekki kunnugt um hana:

Félagsmaður í FÍB sem fór ásamt eiginkonu sinni í 11 daga páskafrí til Kanaríeyja hringdi 14. mars í Leifsstöð til að spyrjast fyrir um hvað kostaði að láta heimilisbílinn standa á langtímastæðinu þessa 11 daga. Svarið var 5.210 kr.

http://www.fib.is/myndir/Iceparkmidi.jpg

En þegar þau vitjuðu bílsins og greiddu í greiðsluvél við útkeyrslu af langtímastæðinu var upphæðin sem tekin var út af korti hans ekki 5.210 eins og manninum hafði verið sagt, heldur 8.000 kr. eins og sjá má á myndinni af greiðslumiðanum.

Áður en hjónin afréðu að aka á bíl sínum í Leifsstöð og geyma hann þar, þangað til þau kæmu til baka athuguðu þau hvað myndi kosta þau að taka flugvallarrútuna báðar leiðir og meðfylgjandi leigubíla til og frá rútunni, í öðru lagi hvað kostaði að taka leigubíl alla leið að heiman í Leifsstöð og til baka og í þriðja lagi að fara á eigin bíl. Miðað við að stöðugjaldið þessa 11 daga yrði 5210 kr. eða í samræmi við eldri gjaldskrána að viðbættum eldsneytiskostnaði hefði ferðakostnaður þeirra til og frá Leifsstöð orðið svipaður og með því að taka rútuna. Því ákváðu þau þægindanna vegna að taka bílinn.

En vegna þess að manninum var sagt rangt til með því að láta hann ekki vita að nýr taxti gengi í gildi daginn eftir, þá reyndist einkabíllinn mun verri kostur fyrir þessi hjón sem eru félagsmenn FÍB.