Hámarkshraðamörk á þýsku hraðbrautunum 130 km/klst?

130 km hámarkshraði á þýsku hraðbrautunum myndi litlu breyta fyrir Þjóðverja því 77 prósent þeirra a…
130 km hámarkshraði á þýsku hraðbrautunum myndi litlu breyta fyrir Þjóðverja því 77 prósent þeirra aka yfirleitt ekki hraðar en það.

Í áranna rás hefur af og til komið upp umræða í Þýskalandi um það hvort setja skuli takmarkanir á aksturshraða á þýsku hraðbrautunum. Almenna reglan hefur alla tíð verið sú að þær eru engar en á vegarköflum þar sem sérstaklega þykir þurfa, eru sett hæfileg hámarkshraðamörk, t.d. í næsta nágrenni stórborga þar sem umferð er mikil og margar inn- og útkeyrslur.

   Nú er þessi umræða enn komin upp og virðist meirihluti þingmanna á sambandsþinginu hlynntur lagasetningu. En fólk er ekki á einu máli. Þeir sem á móti hámarkshraðalögum benda réttilega á að þrátt fyrir allt séu þýsku hraðbrautirnar meðal öruggustu vega í veröldinni og slys sem rekja megi til hraðaksturs séu sárafá og slysatíðni almennt mjög lág. Þá verði með slíkum lögum gripið inn í persónufrelsi fólks sem sjálft ætti að vera fært um að ákveða sjálft hve hratt það ekur og meta þær hættur sem af því gætu stafað.

    En það fyrirfinnst annar þáttur í umræðusarpinum – umhverfisþátturinn og honum veifa þeir gjarnan sem vilja hámarkshraðalög. Mikill hraði kosti meira eldsneyti og því meir sem hraðar er ekið. Meiri eldsneytisbruni þýðir meiri mengun og meiri losun kolefnis og fleiri óæskilegra efna. Í umræðunni er nú talað um að fara að dæmi flestra grannlandanna en hjá þeim flestum er hámarkshraðinn á hraðbrautum 130 og reyndar meðfram þýsku hraðbrautunum eru mjög víða og hafa verið lengi  leiðbeiningarskilti, sem mæla með því að ekið sé á 130 km hraða.

    Der Spiegel greinir frá nýrri athugun á ökuhraða Þjóðverja og hún leiðir í ljós það, að flestir ökumanna óháð kynferði og aldri gera einmitt það nú þegar og aka yfirleitt aldrei hraðar á hraðbrautunum en 130. Aðspurðir segja að það sé þægilegur hraði sem þreyti ekilinn mun minna en hraðakstur á þetta 160-220 km hraða og eldsneytiseyðslan verði mun hóflegri og ferðalagið allt miklu áreynsluminna auk þess að á langkeyrslu nái maður nokkurnveginn jafn snemma í áfangastað og meðalhraðinn verði nokkurnveginn sá sami því sjaldnar þurfi að stansa til að bæta eldsneyti  á bílinn.

    Þessi sama rannsókn leiðir einnig í ljós að eftir því sem hraðinn hækkar umfram 130 km á klst. þá fækkar að sama skapi þeim ökumönnum sem hraðar aka. Eins og fyrr er sagt, aka 77 prósent hinna akandi á 130 km hraða. 12 prósent aka á 130 til 140, Níu prósent aka milli 140 og 160 km hraða og innan við tvö prósent aka á yfir 160 km hraða á klukkustund.