Hámarkshraðamörk í helstu ferðalöndum Íslendinga

http://www.fib.is/myndir/Loggubilar.jpg
Þýska hraðbrautalögreglan er vel tækjum búin og á mjög hraðskreiðum bílum.

Í sumar eru og verða margir Íslendingar á ferðalögum í Evrópu ýmist akandi á eigin bílum eða í bílaleigubílum, - ef til vill fleiri en nokkru sinni áður.

Rétt er að minna alla á að fara í hvívetna að þeim umferðarlögum og –reglum sem gilda í hverju landi þótt ekki sé nú vegna annars en þess að komast hjá vandræðum og leiðindum og útistöðum við handhafa framkvæmdavaldsins á hverjum stað. Í stórum dráttum eru umferðarlög og umferðarreglur í Evrópulöndum þær sömu og gilda á Íslandi. Víða er hins vegar tekið harðar en hér á ýmsum umferðarósiðum eins og sérstaklega þeim að „hanga“ á vinstri akreinum hraðbrauta og hindra með því framúrakstur. Víða er einnig tekið hart á framúrakstri hægra megin, t.d. í Þýskalandi og ættu ökumenn að hafa þetta vel í huga þar í landi

Mörg ríki taka hart á umferðarbrotum og sekta ökumenn á staðnum og getur ferðasjóðurinn auðveldlega farið fyrir lítið. Engin ástæða er þó til að óttast sérstaklega að aka í Evrópu. Evrópumenn eru yfirleitt kurteisir og liprir og fara vel eftir umferðareglum og hliðra vel til fyrir þeim sem þurfa að skipta um akreinar og hafa gefið stefnuljós til að gefa það til kynna. http://www.fib.is/myndir/Hradamork.jpg

Margir horfa með tilhlökkun til þýsku átóbananna – hraðbrautanna því að þar er hægt að slá rækilega í. Það er þó ekki víða sem hægt er lengur að aka eins hratt og mann lystir. Bæði er umferð, sérstaklega á þessum árstíma, mjög mikil og svigrúm til hraðaksturs því sáralítið. Eins er rétt að benda á að Þjóðverjar mæla almennt með 130 km aksturshraða á hraðbrautum og mjög víða er beinlínis bannað að aka hraðar. Fylgist því vel með merkingum um hámarkshraða.

Meðfylgjandi hraðatafla er gefin út af ADAC, systurfélagi FÍB í Þýskalandi. Af henni má lesa hámarkshraðamörk í 26 Evrópulöndum í þéttbýli, vegum í þéttbýli, þjóðvegum og hraðbrautum. Góða ferð.