Hátíð sjálfbærra samgangna í Berlín

Í dag, 18. maí hefst á Tempelhof, gamla sögufræga flugvellinum í Berlín, hátíðin  Challenge Bibendum. Á henni er að venju hverskyns umhverfismildur og sjálfbær samgöngumáti í forgrunni. Þar koma saman flestir þeir sem stefna að sjálfbærum samgöngum og skipta máli í þeim geira.

Það er hjólbarðaframleiðandinn Michelin sem gengst fyrir Challenge Bibendum og er þetta í 11. sinn sem hátíðin er haldin.

http://www.fib.is/myndir/Cha-bibendum-1.jpg
http://www.fib.is/myndir/Challenge-Bib3.jpg

Frá því í dag og fram á sunnudagskvöld verða í tengslum við þennan viðburð sýningar, bæði sögulegar og tæknilegar, málþing verða haldin og margskonar kynningar fara fram, keppt verður í akstri umhverfismildra og sjálfbærra farartækja og gestum standa til boða ökuferðir í þeim.

Hingað til hefur Challenge Bibendum alfarið verið samráðs- og samstarfsvettvangur fyrir þá aðila sem fást við tækni sjálfbærra samgangna. Þar hafa þeir hist og borið saman bækur sínar. En í ár er brugðið út af þeirri venju og er Challenge Bibendum að öllu leyti opið almenningi á laugardag og sunnudag. Þar getur fólk kynnt sér hvað er á döfinni í þessum málum, hvað hefur verið gert, hvað er nýjast og hvenær  má vænta þess að samgöngur verði mengunarlausar og sjálfbærar?

Evrópskir stjórnmálamenn, ekki síst þýskir, hafa um þessar mundir mikinn áhuga á því að gera samgöngur sem mest sjálfbærar, sem þýðir að þær gangi lítið eða ekki á orkulindir jarðar. Þannig tilkynnti Angela Merkel  kanslari Þýskalands á mánudag að framlag ríkisins til fjölgunar rafbíla í umferðinni yrði tvöfaldað og færi í tvo milljarða evra. Það er ekki síst þýski bílaiðnaðurinn sem nýtur góðs af þessum ríkisframlögum í rannsóknum sínum og tilraunum á mengunarléttum farartækjum.

Angela Merkel hefur áður sagt að hún vilji sjá milljón rafbíla í þýsku umferðinni ekki seinna en árið 2020. Það er talsvert háleitt markmið í því ljósi að Þjóðverjar hafa ekki verið ginnkeyptir fyrir rafbílum til þessa. Einungis 2.300 rafbílar eru í umferð í þessu mesta bílalandi Evrópu.