Hefurðu skorað á Ban Ki-moon -

Mænuskaðastofnun Íslands, SEM samtök endurhæfðra mænuskaddaðra, MS-félagið, MND félag Íslands, Lauf félag flogaveikra, Heilaheill, Geðhjálp og Parkinsonsamtökin óska eftir stuðningi íslensku þjóðarinnar við beiðni þeirra til aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, um að mæla fyrir því við fulltrúa aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna að þær samþykki að bæta við nýju þróunarmarkmiði sem snýr að því að efla rannsóknir á taugakerfinu og auka á þann hátt skilning á starfsemi þess.

Sérhver Íslendingur þekkir persónulega einhvern sem sem glímir við afleiðingar slysa og sjúkdóma sem leggjast á taugakerfið með ýmsum afleiðingum og öllum slæmum. Brýnt er að sem allra flestir undirriti  beiðnina til Ban Ki-moon því  meir en milljarður fólks um allan heim þjáist af völdum taugasjúkdóma og skaða í taugakerfinu sem engin lækning er til við ennþá. Meginástæða þess hversu erfiðlega hefur gengið að finna lækningu við til dæmis mænu- og heilasköðum og taugasjúkdómum er sú að vísindasamfélagið hefur takmarkaðan skilning á virkni taugakerfisins. Markvissar rannsóknir skortir.

FIA – alþjóðasamtök bifreiðaeigendafélaga láta sig þessi mál mjög varða, ekki síst vegna þess að margir verða fyrir mænu- og taugakerfisskaða í umferðarslysum. FÍB er virkur þátttakandi í baráttunni gegn umferðarslysavánni, bæði á eigin vegum og í alþjóðasamstarfi FIA. FIA styður í vaxandi mæli rannsóknir á taugakerfinu, ekki síst fyrir vegna áralangrar og ótrauðrar baráttu  Auðar Guðjónsdóttur forsvarsmanns Mænuskaðastofnunar Íslands sem um margra ára skeið hefur barist fyrir auknum rannsóknum á mænuskaða sem leitt gætu til þess að lækning fyndist. Þegar Jean Todt forseti FIA heimsótti FÍB á Íslandi í ársbyrjun 2011 átti hann m.a. fundi með Auði og forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni. Síðan þá hefur alþjóðlegt samstarf við að rannsaka og leita lækninga við mænuskaða eflst jafnt og þétt en betur má ef duga skal - miklu betur.

 

Þeir sem undirrita beiðnina til aðalritara SÞ stuðla að eftirfarandi:

  1. Aukinn skilningur á virkni taugakerfisins verði samþykkt sem sjálfstætt þróunarmarkmið hjá Sameinuðu þjóðunum í september næstkomandi.
  2. Að aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna samþykki að leggja í sjóð vissa fjárupphæð árlega til ársins 2030. Féð skuli notað til að koma á fót alþjóðlegum starfshópi taugavísindamanna frá viðurkenndum háskólum víða um heim. Hlutverk starfshópsins verði að skoða hina stóru mynd alþjóðlegs taugavísindasviðs, meta stöðuna, koma á samvinnu og veita veglega styrki í þeim tilgangi að ná fram heildarmynd af virkni taugakerfisins.