Heildarkostnaður við Vaðlaheiðargöng 20 milljarðar

Á opnum fundi í samgöngunefnd Alþingis, sem haldinn var föstudaginn 25. mars, kom fram í máli Runólfs Ólafssonar framkvæmdastjóra FÍB að heildarkostnaður við Vaðlaheiðargöng væri áætlaður 20 milljarðar króna á þeim 30 árum sem áætlað væri að gera göngin og innheimta vegatolla til að borga lánin. Á sama tíma mætti áætla að tekjur af vegatollum gætu orðið rúmlega 10 milljarðar króna. Þessar tölur eru með virðisaukaskatti í báðum tilfellum en lækka nokkuð ef hann verður felldur niður. Samkvæmt þessu falla allt að 10 milljarðar króna á ríkissjóð vegna Vaðlaheiðarganga, þvert ofan í fullyrðingar talsmanna gangagerðarinnar um að vegatollar muni standa undir þeim að öllu leyti.

Í nýjum útreikningum FÍB er gengið út frá áætlun Vegagerðarinnar um 10,4 milljarða króna kostnað við framkvæmdir og 3,9% vexti eins og þá sem lífeyrissjóðirnir buðu ríkinu á síðasta ári. Einng er gert ráð fyrir rekstrarkostnaði upp á 75 milljónir króna á ári og vega þar tryggingar og rafmagn þyngst. Samkvæmt þessu verður fjármagnskostnaður 7,6 milljarðar króna á þessum 30 árum og rekstrarkostnaður 2 milljarðar. Samtals gerir þetta 20 milljarða króna.

Í nýjum útreikningum FÍB er hugmynd talsmanna Vaðlaheiðarganga um vegatolla notuð óbreytt. Þeir gera ráð fyrir að meðalgjald um göngin verði 672 kr. FÍB hefur hins vegar áfram miklar efasemdir um að nánast öll umferð um Víkurskarð velji göngin jafnt sumar sem vetur. Hófleg áætlun FÍB um að 75% umferðarinnar fari um göngin þýðir að ríkið þarf að borga með rekstri þeirr um 360 milljónir króna á ári í þessi 30 ár, eða um 10 milljarða króna.