Aukning í lánum til bílakaupa

Viðskiptablaðið greinir frá því í dag að nýjar lánveitingar til íslenskra heimila vegna bílakaupa hafi verið 14,1 milljarður króna á síðustu 12 mánuðum. Samkvæmt gögnum frá Seðlabanka Íslands námu ný bílalán að frádregnum uppgreiðslum 1,8 milljörðum króna í júlí síðastliðnum. Fram kemur í frétt VB að lánveitingar til bílakaupa hafi ekki verið jafn háar í einum mánuði frá því fyrir hrun 2008. Lánveitingar yfir tímabilið ágúst 2017 til og með júlí 2018 voru 8,3% hærri en 12 mánuðina þar á undan.

Bílasala náði nýjum hæðum á síðasta ári eftir mikla sölutregðu og samdrátt í kjölfar hrunsins. Í Árbók bílgreina 2018 sem gefin er út af Bílgreinasambandinu kemur fram að 2017 hafi verið slegið met í fjölda nýskráðra fólksbíla. Heildarfjöldi nýrra skráðra bifreiða var 23.917 á árinu, sem er 15% aukning frá fyrra ári, hlutfallsleg aukning milli ára er þó heldur minni nú en á síðasta ári. Nýskráðir nýir fólksbílar voru 21.346 árið 2017 og nýir atvinnu bílar (sendi-, vöru- og hópbílar) voru 2.506. Hlutfallsleg aukning skráninga nýrra fólksbíla nam 16% milli ára en aukningin nam 8% í flokki atvinnubíla. 

Samkvæmt tölum frá Samgöngustofu þá voru nýskráðir 25.870 nýir og notaðir fólksbílar árið 2017. Árið 2016 var samtala nýskráðra fólksbíla, nýrra og notaðra, 20.760. Árið 2015 var samtala nýskráðra 15.179 fólksbílar, 10.444 bílar árið 2014 og 8.043 bílar árið 2013. Árið 2017 var aukning nýskráninga 222% samanborið við 2013.

Blaðamaður FÍB leitaði upplýsinga hjá bílasölum nýrra og notaðra bíla um lánaviðskipti á markaðnum. Það er samdóma mat viðmælenda að neytendur í dag séu varfærnari í bílaviðskiptum og að hlutfall eiginfjár í bílakaupum séi hærra nú en löngum áður. Allar reglur og kröfur um upplýsingaskyldu varðandi lánshæfi hafa verið hertar á síðustu árum með það að markmiði að tryggja greiðslugetu og vitund neytenda. Bílasalarnir sem FÍB ræddi við telja að auknar lántökur séu fyrst og fremst tilkomnar vegna fleiri kaupsamninga til að mæta uppsafnaðri endurnýjunarþörf á bílaflota landsmanna. Íslenski bílamarkaðurinn hefur einkennst af miklum sveiflum og nú eru teikn á lofti um að draga muni úr sölu nýrra bíla á næstu misserum.