Heimsbíll ársins 2012

64 blaðamenn frá 25 löndum sem velja heimsbíl ársins hafa nú komið sér saman um hvaða bíll skal njóta þessa heiðurs á yfirstandandi ári. Og sá bíll er Volkswagen Up og þá á viðurkenningin sömuleiðis (óbeint) við systurbílana Seat MII og Skoda Citigo. Úrslitin voru kynnt við opnun bílasýningarinnar í New York þann 5. apríl sl.

Þessi dómnefnd útnefnir reyndar þrenns konar bíla. Sá bíll sem flest stig hlýtur og þar með aðaltitilinn hreppir titilinn heimsbíll ársins. En alls er viðurkenningum úthlutað til fjögurra bíla og fá þeir sem sem næstir koma toppbílnum að stigum titlana –besta nýhönnunin, mesti og besti ofurbílinn og í fjórða lagi grænasti (umhverfismildasti) bíl ársins. Besta nýhönnunin féll á Range Rover Evoque, mesti ofurbíllinn var valinn Porsche 911 og Mercedes S 250 CDI er sá grænasti. Það eru því þrír þýskir bílar og einn breskur sem viðurkenningar hljóta í ár frá þessari heimsbílsnefnd.

Það sem hreif dómnefndarfólkið einna mest við Volkswagen Up var hversu góður hann er í stýri, hversu fjöðrunin er hófstillt og góð, þriggja strokka vélarnar eru öflugar og sparneytnar og hve allur frágangur er góður og vandaður.

Þetta er í þriðja sinn sem Volkswagenbíll vinnur titilinn heimsbíll ársins frá því að titlinum var fyrst úthlutað árið 2005.  Árið 2005 var sigurvegarinn Audi A6, árið 2006 var það BMW 3-línan, árið 2007 var það Lexus LS 460, árið 2008 var það var það Mazda 2, árið 2009 Volkswagen Golf, árið 2010 Volkswagen Polo, árið 2011 rafbíllinn Nissan Leaf og nú sem fyrr segir Volkswagen Up.

Það er mat dómnefndarinnar að með Volkswagen Up hafi verið sett ný viðmið um smábíla. Nú hafi aðrir framleiðendur smábíla og borgarbíla þann kost einan að setja sér hærri gæðamarkmið til að geta boðið fram borgarbíla sem eru samkeppnishæfir við Volkswagen Up" að því er segir í niðurstöðum dómnefndarinnar.