Hekla með flesta bílana

Þegar rýnt er í nýskráningartölur Umferðarstofu fyrir nýliðið ár, kemur í ljós að það bifreiðaumboð sem flutti flesta nýja fólksbíla til landsins árið 2012 var Hekla. Bílarnir sem Hekla flutti inn voru flestir af tegundunum Volkswagen og Skoda, en auk þess flytur Hekla inn Audi og Mitsubishi.

En sú bifreiðategund sem mest var flutt inn af er hins vegar Toyota en Toyota (og Lexusbílar) voru 17,2% þeirra bíla sem nýskráðir voru á Íslandi 2012.

Oft heyrist talað um gráan innflutning bíla og er þá átt við að aðrir aðilar en hin hefðbundnu bílaumboð hafi annast innflutninginn. Orðalagið grár innflutningur er þó villandi, því það vísar til þess að hugsanlega sé ekki farið í einu og öllu eftir gildandi leikreglum. Nær væri að tala um samsíða innflutning, enda er ekkert lengur sem heitir einkaumboð fyrir bifreiðar. Hver sem er getur því flutt inn nýja bíla svo framarlega sem hann uppfyllir almenn skilyrði um slíka starfsemi.

Af nýskráningartölum ársins 2012 má sjá að samsíða innflutningsgeirinn er ekki sérlega fyrirferðarmikill í bifreiðainnflutningnum því að á hans vegum voru einungis 53 bílar nýskráðir í fyrra, eða 0,7 prósent af þeim 7.902 fólksbílum sem nýskráðir voru á árinu.

http://www.fib.is/myndir/Umbodin.jpg