Helmingur látinna var 17 ára og yngri

Slysaskýrsla Umferðarstofu 2011 er nýkomin út en slysaskráningin byggir á lögregluskýrslum sem fengnar eru úr gagnagrunni ríkislögreglustjóra ásamt því að á árunum 2009 – 2011 var stuðst við gögn frá Aðstoð og öryggi.

Fjöldi látinna í umferðinni árið 2011 var 12 en það er töluvert færri en meðaltal 10 ára á undan sem var 19. Árið 2010 létust 8 í umferðinni hér á landi en þá höfðu ekki færri látið lífið í umferðinni frá árinu 1968 og má ætla að fjöldi látinna m.v. höfðatölu hafi verið lægstur í heiminum hér á landi árið 2010. Ekki náðist slíkur árangur árið 2011 en í samanburður við hin Norðurlöndin er fjöldi látinna í umferðinni árið 2011, miðað við fjölda íbúa, aðeins lægra í Svíþjóð og Noregi sem eru þau lönd sem yfirleitt eru með lægsta dánartíðni umferðarslysa í heiminum. Í ljósi þess má ætla að fjöldi látinna hér á landi sé með því lægsta sem gerist í heiminum árið 2011.

Helmingur þeirra sem lét lífið í umferðinni voru 17 ára og yngri;  Fjórir 17 ára ökumenn og tvær fótgangandi stúlkur. Fjórir kvenmenn létust og átta karlmenn.

25% fækkun alvarlega slasaðra

http://www.fib.is/myndir/Alvarlega-slas.jpg

Sérstaka athygli vekur að fjöldi alvarlegra slysa og alvarlega slasaðra minnkar umtalsvert borið saman við árið 2010 en þá var fjöldi alvarlega slasaðra samtals 205 sem er það hæsta sem sést hefur í tölum slysaskráningar Umferðarstofu. Nú lækkar sá fjöldi hinsvegar um 25% og er komin niður í 154 sem er undir 10 ára meðaltali sem er 163.

Flest markmið náðust árið 2011

Það er ljóst að árið 2011 stendur að flestu leyti vel undir þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa sett í umferðaröryggisáætlun tímabilsins 2011-2022.
Markmið stjórnvalda um aukið umferðaröryggi til ársins 2022 eru:

·        
Að fjöldi látinna í umferðinni á hverja 100 þúsund íbúa verði ekki meiri en það sem lægst gerist hjá öðrum þjóðum, fyrir árið 2022. Miðað við fyrirliggjandi   tölur má ætla að þetta markmið hafi náðst.

·         Að fjöldi látinna og alvarlega slasaðra í umferðinni lækki að jafnaði um 5% á ári til ársins 2022. Þess má geta að á síðasta ári lækkaði sá fjöldi um 13% og er það því langtum meiri lækkun en markmiðin stefndu að.

Auk þessa hafa verið skilgreind ákveðin undirmarkmið sem ætlunin er að ná á tímabilinu.  Þegar rauntölur svonefndra undirmarkmiða eru skoðuð kemur í ljós að í flestum tilfellum eru þau að nást. Þar er þó undantekning fjöldi slasaðra óvarinna vegfarenda (gangandi og hjólandi) og slasaðra erlendra ríkisborgara. Þetta má sjá í töflunni hér að neðan.

http://www.fib.is/myndir/Markmidin.jpg


Tekið skal fram að í einhverjum tilfellum rata umferðaróhöpp ekki í gagnagrunninn heldur beint á borð tryggingafélaga en það á yfirleitt við í tilfellum þar sem ekki er um slys á fólki að ræða. Hér má sjá slysaskýrslu Umferðarstofu fyrir árið 2011.