Herör upp skorin gegn umferðarslysum

The image “http://www.fib.is/myndir/Trukkur.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.


Á fundi Umferðarráðs í gær var eftirfarandi ályktun samþykkt.

„Umferðarráð minnir á að nú fer í hönd mikill álagstími á vegum landsins. Reynslan sýnir að flest alvarlegustu umferðarslysin verða á þjóðvegum utan þéttbýlis að sumarlagi.  Mánuðina júní, júlí og ágúst, árin 1995 til 2005 létust 82 í 71 umferðarslysi hér á landi, þar af 14 erlendir ferðamenn. Sjö af hverjum tíu sem bíða bana í umferðarslysum hér á landi látast á vegum utan þéttbýlis.

Brýnt er að breyting verði hér á. Umferðarráð lýsir sérstakri ánægju með þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í til þess að auka eftirlit lögreglu. Reynslan sýnir að  þegar saman fer öflugt eftirlit og markviss áróður og fræðsla næst árangur.

Umferðarráð fagnar mjög nýjum öruggari vegum, s.s. tvöfaldri Reykjanesbraut. Einnig nýjum vegarkafla í Svínahrauni með miðjuvegriði, þótt nokkuð vanti upp á hönnun hans hvað umferðaröryggi varðar. Framkvæmdir sem þessar skila umtalsverðri arðsemi og bindur Umferðarráð miklar vonir við að markvisst verði haldið áfram á þeirri braut að auka öryggi vega og gera umhverfi þeirra sem hættuminnst. Hvatt er til þess að  vegmerkingar, m.a. við framkvæmdir, verði bættar frá því sem nú er.

Umferðarráð bendir hins vegar á að fyrst og fremst þarf hver einasti vegfarandi að vera meðvitaður um þá miklu ábyrgð sem fylgir þátttöku í umferðinni.  Ökumaður sem fer varlega og eftir settum reglum er ekki einungis að minnka áhættu sína og farþega sinna heldur allra annarra í umferðinni. Bílbelti og öryggisbúnað fyrir börn í bílum á undantekningarlaust að nota. Þar á orðið „stundum” ekki við, heldur ekki um að virða hraðatakmörk, að aka miðað við aðstæður og að vera allsgáður við stýrið.

Umferðarráð beinir þeirri eindregnu áskorun til allra landsmanna að þeir skeri upp herör gegn slysum í umferðinni. Enginn má þar skorast undan”.  

http://www.fib.is/myndir/Hringtorg-merkingar.jpg
-Hvatt er til þess að  vegmerkingar, m.a. við framkvæmdir, verði bættar frá því sem nú er- segir m.a. í nýrri ályktun Umferðarráðs.