Hert á viðurlögum við umferðarbrotum

 http://www.fib.is/myndir/Imprezatryllir.jpg
Impreza með á fjórða hundrað hestafla. Ráðherra getur sett reglur um að ungmennum með bráðabirgðaökuskírteini megi ekki aka svona bílum í umferðinni ef nýtt frumvarp verður að lögum.

Fyrir alþingi liggur nú frumvarp samgönguráðherra um hert viðurlög við umferðarlagabrotum auk þess sem hert er ákvæðum um bráðabirgðaökuskírteini. Þá er það nýmæli í frumvarpinu að gera megi ökutæki upptækt þegar ökumaður hefur gerst ítrekað sekur um gróf og endurtekin umferðarlagabrot og gildir þá einu hvort ökumaðurinn notaði eigið ökutæki við brotið eða ekki.

Samkvæmt núgildandi lögum eru gefin út bráðabirgðaökuskírteini sem gilda í tvö ár og fær handhafi þess útgefið fullnaðarskírteini ef ökuferill hans er nokkurnveginn áfallalaus þann tíma sem bráðabirgðaskírteinið gilti. Samkvæmt frumvarpinu lengist gildistími bráðabirgðaökuskírteina í þrjú ár.

Því til viðbótar fær ráðherra vald til að takmarka ökuheimildir byrjenda bæði til að mega vera í akstri á tilteknum tíma sólarhringsins, t.d. á nóttunni. Ráðherra fær einnig valdheimild til að setja takmarkaðnir við það hversu margir farþegar yngri en 20 ára mega ferðast með byrjandanum hverju sinni og einnig við hversu aflmiklum bíl hann má aka.