Hert viðurlög við umferðarlagabrotum

http://www.fib.is/myndir/Traffic-ticket.jpg

Á föstudaginn kemur, þann 1. desember taka gildi tvær nýjar reglugerðir þar sem hert eru viðurlög við umferðarlagabrotum. Önnur tekur til sekta og annarra viðurlaga vegna umferðarlagabrota en brýnt þótti að hækka sektir þar sem það hefur ekki verið gert síðan árið 2001. Hin reglugerðin fjallar um ökuferilsskrá og punktakerfi vegna umferðarlagabrota.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra skrifaði undir reglugerðirnar 31. október s.l. og öðlast þær báðar gildi 1. desember næstkomandi. Núgildandi reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna umferðarlagabrota er frá árinu 2001 og því orðið brýnt að endurskoða upphæðir sekta þó ekki væri nema til að halda í við verðlagsþróun. Breytingarnar eru gerðar að fengnum tillögum ríkissaksóknara eins og tilskilið er skv. umferðarlögum.

Lægri vikmörk vegna hraðakstursbrota
Helstu breytingar eru þær að lagt er til að sektir vegna einstakra umferðarlagabrota hækki. Vikmörk vegna hraðakstursbrota verður minnkað úr 10 km/klst. í 5 km og sektir verða frá 5.000 krónum til 110.000 króna í stað 5.000 og 70.000 króna áður. Er það nærri 60% hækkun. Sektir vegna ölvunaraksturs hækka úr 50.000 til 100.000 krónum í 70.000 til 140.000 krónur. Þá eru reglur orðnar ítarlegri vegna brota á reglugerð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna nr. 662/2006 svo og reglugerð um ökurita og sektir eru á bilinu 15.000 til 120.000 krónur en voru áður 20.000 til 70.000 krónur. Einnig eru hækkaðar sektir vegna brota á reglugerð um flutning á hættulegum farmi úr 20.000 til 60.000 króna í 30.000 til 90.000 króna.

Fleiri punktar fyrir brot á aksturs- og hvíldartíma ökumanna
Meðal breytinga á reglugerð um ökuferilsskrá og punktakerfi vegna umferðarlagabrota eru að brot á reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna varða nú frá punkti í ökuferilsskrá til fjögurra punkta.

Frekari upplýsingar um þetta er að fá á heimasíðu Umferðarstofu og á heimasíðu samgönguráðuneytisins.