Hertar kröfur til nýrra bíla

Þann 1. nóvember sl. tóku gildi Evrópureglur um aukinn öryggisbúnað í nýjum bílum. Þessar nýju reglur eru hluti af stærri reglupakka sem varðar öryggi bíla og sem hefur og er verið að innleiða í áföngum fram til 2014.

Sá áfangi sem tók gildi um nýliðin mánaðamót felur í sér að frá 1. nóvember skulu allir nýir bílar vera með eftirfarandi búnað:

  1. Vöktunarkerfi sem fylgist með loftþrýstingi í hjólbörðum og lætur vita þegar hann verður of lágur.
  2. Tilkynningaskjár í mælaborði sem segir ökumanni hvenær rétta augnablikið er til að skipta um gír.
  3. A.m.k. tvær Isofix festingar fyrir barnastóla í aftursæti.
  4. Viðvörunarmerki sem vara við því að festa afturvísandi barnastól fyrir framan virkan loftpúða.
  5. Viðvörunarflauta sem minnir ökumann á að spenna öryggisbeltið

Ekki er langt síðan nýjar reglur um merkingar á hjólbörðum tóku gildi. Þær eru þannig að neytendur geta á auðveldan og auðskiljanlegan hátt áttað sig á hversu dekkin eru hagkvæm með tilliti til eldsneyiseyðslu, hversu vel þau ryðja frá sér vatni og hversu hávær þau eru í akstri. Á næstunni er svo m.a. von á  hertum reglum um rafmagnsbíla sem miða að því að draga enn frekar úr hættu á að verða fyrir raflosti við það að snerta þá, sem og strangari kröfum um aftursæti bíla til að minnka slysahættu við aftanákeyrslu.

Allir nýir bílar sem verða á sölumarkaði í ríkjum EES og Evrópska efnahagssvæðisins verða frá og með 2014 að uppfylla kröfur nýju reglnanna.  Frá 1. nóvember sl. verða þó allir bílar sem fara í gerðarviðurkenningarferli að uppfylla þær.