Hinn langdrægi Opel Ampera-e mun ódýrari en vænst var

GM hefur gefið út verðlista í Noregi yfir nýja rafbílinn Opel Ampera-e sem kemur verulega á óvart. Bíllinn, sem er einn langdrægasti rafbíllinn til þessa mun kosta með 60 kílóWatta rafgeymum (allt að 500 km drægi) og öllum fullkomnasta búnaði tæplega 3,9 milljónir ísl kr. Það er tæpum 400 þ. ísl. kr. lægra en búist var við. Fastlega er búist við verðstríði á markaði nýrra rafbíla í Noregi á nýju ári.

    Uppgefið drægi þessa nýja bíls er 500 kílómetrar sem er tvöfalt drægi flestra annarra rafbíla að undanteknum hinum miklu dýrari Tesla S lúxusbíl. Norskir fjölmiðlar fagna þessu mjög og telja að innflytjendum annarra rafbíla verði líklegast ekki svefnsamt á næstunni. Verðið sé ekkert ,,frá...“ verð heldur fyrir fullbúinn bíl með öllu, eins og gjarnan er komist að orði. Af því fáa sem hægt verður að bæta við í búnaði og greiða verður aukalega fyrir, er leðurinnrétting, hituð aftursæti og sjálfvirknibúnaður sem leggur bílnum í stæði.

    Norðmenn verða þeir fyrstu í Evrópu sem fá Opel Ampera-e til afgreiðslu næsta vor. A.m.k. 2.500 staðfestar pantanir liggja þegar fyrir og nú þegar verðið er komið á hreint má búast við að þeim stórfjölgi. BilNorge segir að sökum langdrægis þessa nýja bíls og hins óvænta og mjög hagstæða verðs geti vart talist vera bjart framundan hjá öðrum rafbílaframleiðendum á norska bílamarkaðinum á nýju ári. Það eina sem geti komið í veg fyrir hrun í sölu annarra rafbíla og að einhverju leyti fólksbíla almennt í Noregi og víðar sé að GM geti ekki annað fyrirsjáanlegri eftirspurn eftir bílnum.

    – Við vitum að framleiðslugeta okkar fyrst í stað verður takmörkuð. Þessvegna ákváðum við að byrja að kynna Ampera-e í löndum sem þegar hafa byggt upp nauðsynlega innviði fyrir rafbíla eða eru á góðri leið með það. Þar er Noregur efstur á blaði. Þvínæst hefst salan í Þýskalandi, Hollandi, Frakklandi og Sviss,“ segir Peter Christian Küspert, sölustjóri  Opel Group í Evrópu við BilNorge..

    Uppgefið drægi Opel Ampera-e er 500 kílómetrar sem fyrr segir, mælt samkvæmd hinum opinbera NEDC staðli.  Sé tekið tilliti til lofthitastigs og mismun vetrar- og sumarhita og aksturslags og notkunarmynsturs fólks, sést að eyðslutölur samkvæmt NEDC staðlinum eru talsvert ,,bjartsýnar“ miðað við almenna notkun og aksturslag fólks. Hætt verður á seinni hluta næsta árs að miða eyðslutölur bíla í gerðarviðurkenningarskjölum þeirra við NEDC staðalinn. Við tekur nýr staðall; WLTP. sem þykir fara mun nær raunveruleikanum. Samkvæmt honum mælist drægi hins nýja Opel Ampera-e 380 kílómetrar.