Hitlersdraumur

Í bílasafni Mercedes Benz í Stuttgart er nú til sýnis bíll sem átti að ná 750 km hraða. Til stóð að tilraunin færi fram á hraðbraut við Dessau í janúarmánuði 1940. Af því varð aldrei þar sem síðari heimsstyrjöldin var þá komin vel í gang. Hefði það tekist hefði það vafalaust þótt makalaust afrek, enda hafði enginn einasti bíll náð neinu í námunda við slíkan hraða og hefur varla enn. En tilraunin var aldrei gerð og var bíllinn fluttur í geymslu í Austurríki þar sem hann hálf gleymdist áratugum saman.

Adolf Hitler var það nokkurt kappsmál að þessi bíll yrði byggður og tilraunin yrði gerð og með honum um hugmyndina voru þeir Ferdinant Porsche bílaverkfræðingur og kappakstursmaðurinn Hans Stuck og saman fengu þeir Daimler Benz til að taka þátt í verkefninu og byggja bílinn og lauk henni árið 1939 um það leyti sem styrjöldin hófst. Hitler vildi að bíllinn yrði lakkaður svartur og hakakrossar málaðir á hliðar hans og skyldi hann kallast Svarti fuglinn. Af því varð hins vegar aldrei því að allt framleiðslu- og tækniafl Mercedes var komið í vopna- og hergagnaframleiðslu.

Vélin sem notuð var í bílinn var risastór bensínvél sem hönnuð hafði verið og byggð til þess að knýja Messerschmidt BF 109 orrustufugvélar. Hún var V12 strokka 3.000-3.500 hestöfl og rúmtak hennar hvorki meira né minna en 44,5 lítrar. Til samanburðar þá eru dísilvélar í stærstu vörubílum nútímans um 16 lítrar að rúmtaki. Bíllinn var sex hjóla eins og sést á myndunum en yfirbyggingin var mjög straumlínulöguð og loftmótstaðan sáralítil eða einungis 0,18 CW sem er nokkru lægra en hjá eins lítra bílnum hjá Volkswagen. Bíllinn vegur 2,8 tonn og er átta metra langur.

http://fib.is/myndir/Hitlersbens2.jpg
http://fib.is/myndir/Hitlersbens3.jpg