Hjólið fundið upp á ný!

Hvenær verður það bílhjól að veruleika sem leysir loftfyllta hjólbarðann af hólmi. Mörgum finnst að tími hefðbundnu dekkjanna ætti með réttu að vera löngu liðinn.  Fjöldamargar frumgerðir nýrra bílhjóla hafa orðið til – hjól sem aldrei þarf að hafa áhyggjur af, aldrei þarf að pumpa í og aldrei verða loftlaus eða hvellspringa. Mörg slík hjól hafa orðið til og verið prófuð og sum þeirra vissulega lofað góðu, en ekkert síðan gerst.

Michelin er einn þeirra hjólbarðaframleiðenda sem  lagt hefur sig eftir þessu úrlausnarefni en komst ekki lengra með það en að skila bíleigendum bíl-radíalhjólbarðanum X sem margir hinna framleiðendanna hafa síðan stælt.  Að vísu komst Michelin lengra með málið því að fyrir um áratug  komu hönnuðirnir fram með Tweel-hjólið sem í raun er sambyggt þannig að það er eiginlega bæði dekk og felga í senn. Það er með gúmmíslitfleti en til að ná fjöðrunareiginleikum loftfyllta hjólbarðans er hjólið úr gerviefni og hluti þess með holrúmum sem geta gefið eftir og fjaðrað. Hjólið hafði þann galla að vilja skjálfa þegar hraði tilraunabílanna fór yfir 80 km á klst.

Þetta Tweel hjól (samsett úr Tire (barði) og Wheel (hjól) hefur þannig aldrei komið á markað sem bílhjól. Það er hins vegar að finna undir Segway einmenningsfarartækjunum og undir ýmsum léttum vögnum og farartækjum í iðnaði. Svo notaði NASA það undir tunglbíl og bílinn sem sendur var til Marz til sýnatöku og úrvinnslu. 


En fleiri hafa spreytt sig á því að búa til nýtt bílhjól. Þannig sýndi Bridgestone sitt Airfree hjól í Tokyo fyrir tveimur árum og á nýlega afstaðinni Frankfurt bílasýningunni sýndi Hankook hjól sem heitir i-Flex. Bæði var hægt að sjá sjálft hjólið þar í ýmsum litum meira að segja og sömuleiðis skrúfað undir mikið uppfærða útgáfu af litla Fólksvagninum VW up!

i-Flex hjólið er eins og gamla Michelin Tweel hjólið með fjöðrun sem ætlað er að „gleypa“ ójöfnur í veginum en á sama tíma vera stíft gagnvart hliðarkröftum þannig að það lyppist ekki niður (og bíllinn með) í beygjum. Það var sagt munu verða ódýrt í framleiðslu og að 95 prósenta leyti úr endurnýjanlegum efnum og að sjálfsögðu loftlaust og að öðru leyti laust við viðhald.