Hljóðlausir bílar háskalegir

Óneitanlega er það dálítil þversögn að eftir áratuga vinnu við að gera bíla sem allra hljóðlátasta þá þurfi bílaframleiðendur nú að fara að setja einhverskonar hljóðgjafa í hljóðlátustu bílana (rafbílana) af því þeir eru hættulega hljóðlátir.  Volvo, sem nú vinnur hörðum höndum að þróun rafbíla, hefur meira að segja sett upp sérstaka deild sem vinnur að því að búa til hljóðgjafa og „gervihljóð“ fyrir væntanlega rafbíla Volvo.

 Japönsk yfirvöld hafa hvatt bílaverksmiðjurnar til að búa til hljóðkerfi sem í heyrist þegar bílunum er ekið undir 25 km hraða. Obama Bandaríkjaforseti gengur lengra því að hann hefur fengið samþykkt lög sem taka gildi 2014, um að í bílunum skuli heyrast þegar þeim er ekið.

Ástæða þessa er auðvitað sú að rafbílar hafa valdið slysum. Þau verða þannig að „mjúka umferðin“ (fótgangendur og hjólandi) sem eru vanir því að í bílum heyrist og að treysta heyrninni ekkert síður en sjóninni, heyra ekkert bílahljóð og verða fyrir hljóðlausum rafbíl.

„Hljóðalög“ Obama  forseta eiga einnig að ná til bæði tvinnbíla og rafbíla með innbyggðri rafstöð, enda aka slíkir bílar að meira eða minna leyti á rafstraumnum einum, sérstaklega í borgarakstri. Sem dæmi má nefna nýjustu kynslóð Toyota Prius sem í borgarakstrinum keyrir að mestu leyti á rafmagninu. Bensínvélin í bílnum fer fyrst í gang eftir að hraðinn er kominn upp í 40 km á klst.

Þar sem enginn staðall er orðinn til enn um hvernig eigi að heyrast í rafbílunum og framleiðendurnir eru hver í sínu horni að fást við að búa til hljóðin, má búast við nokkurri hljóðafjölbreytni þegar fram líða stundir. En sums staðar hafa vissulega verið settar reglur um hvað má og hvað ekki. Bandarísku lögin fyrrnefndu banna t.d. hljóð eins og öskur bjarndýra, fuglasöng og mannleg öskur og gól.