Hlöðum á landsbyggðinni fjölgar

Hlöðum á landsbyggðinni fjölgar jafnt og þétt. Nú hefur Orka náttúrunnar komið upp hlöðu á Dalvík í samstarfi við N1 og stendur hún við sjálfsafgreiðslu fyrirtækisins og aðstöðu hvalaskoðunarfyrirtækisins Arctic Sea Tours við Hafnarbraut. Með þessu þéttist enn það net af hlöðum sem ON hefur komið upp á Norðurlandi. Fyrir eru hlöður við Staðarskál, á Blönduósi, í Varmahlíð, á Sauðárkróki, Akureyri, Húsavík og við Mývatn.

Upplýsingar um allar hlöður ON er að finna í smáforritinu ON Hleðsla. Það er fáanlegt fyrir hvorttveggja Android síma og iPhone. Auk þess að sýna hvar hlöður er að finna sýnir appið leiðina að þeim, hvers lags hleðslubúnaður er í hverri hlöðu og hvort þær eru uppteknar.

Í hlöðunni við Hafnarbraut á Dalvík, sem tekin var í notkun á föstudag, eru tengi af gerðunum Type 1 og Type 2. Það þýðir að búnaður er ekki til hraðhleðslu og ekki verður innheimt fyrir notkun á hlöðunni fyrst um sinn.