Höfnun bótakröfu stenst ekki

Reykjavíkurborg og tryggingafélag borgarinnar hafa hafnað bótakröfu félagsmanns FÍB sem varð fyrir því að bíll hans stórskemmdist í holu á Hverfisgötu 28. febrúar sl. Meginrök fyrir höfnuninni eru þau að starfsmenn Reykjavíkurborgar hafi ekki vitað af því að aðstæður á óhappastað hefðu verið eins og þær voru. (Sjá nánar í frétt FÍB).

Í framhaldi af frétt á vef FÍB um atvikið hefur annar félagsmaður FÍB nú greint frá því að starfsmönnum borgarinnar hefði vissulega átt að vera kunnugt um ástandið því sjálfur hefði hann þann 16. febrúar tilkynnt á ábendingavef Reykjavíkurborgar um hættulegt ástand malbiks á neðri hluta Hverfisgötu, einmitt þar sem fyrrnefndur bíll stórskemmdist. Forsenda höfnunar á bótaábyrgð stenst því ekki.  

Ábendingin er nr. 118094 á ábendingavef  http://reykjavik.is/thjonusta/abendingar-til-borgarinnar dags. 16. febrúar 2016 kl. 09:56 og er svohljóðandi:

 „Vek athygli á því að ástand á yfirborði malbiks á neðri hluta Hverfisgötu, einkum á bilinu milli Ingólfsstrætis og Klapparstígs, heldur áfram að versna. Komin er fram fjöldi stórra gata með hvössum brúnum sem ná niður í gegnum malbikið ofan í undirbyggingu malbiksins. Götin valda verulegri hættu á skemmdum á dekkjum og felgum bíla."