Hofsvallagatan hreinsuð

Kannski verður eftir allt sem á undan er gengið, ekki nauðsynlegt að loka Hofvallagötu milli Hringbrautar og Hagamels um varptímann því að samkvæmt samþykkt Umhverfis- og skipulagsráðs í gær verða fuglahúsin og önnur umdeild furðumannvirki í götunni fjarlægð.

Þótt fuglahús og flaggstengur fari sem og flestar þær breytingar sem gerðar voru á götunni án minnsta samráðs við íbúa, þá eru þær ekki með öllu afturkallaðar. Hjólastígurinn til norðurs að gatnamótum Hofsvallagötu og Hringbrautar á að fá að vera áfram við lýði. Þannig á sá umferðartappi sem af þessu hefur hlotist að fá að lifa áfram. Hann felst í því að hjólastígurinn útrýmir annarri af tveimur akreinum til norðurs við gatnamótin. Það þýðir að bílaumferð sem beygir til vesturs inn á Hringbrautina á grænu ljósi, lokar fyrir streymi þeirrar umferðar sem stefnir í átt til Landakotshæðar og inn á Hringbrautina til austurs.

Um þetta segir svo í samþykktinni frá í gær: „Fyrirkomulag hjólastígsins er tilraun fram að endanlegri hönnun götunnar sem fyrirhuguð er á næsta ári og því mikilvægt að fá reynslu á fyrirkomulagið áður en framkvæmt er til lengri framtíðar. Þær breytingar sem nú eru fyrirhugaðar skulu kynntar samráðshópi og íbúum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Júlíus Vífill Ingvarsson, Hildur Sverrisdóttir og Óttarr Guðlaugsson sátu hjá við afgreiðslu málsins en lögðu fram eftirfarandi bókun:

„Tekið er undir þakkir til íbúa sem hafa unnið með Umhverfis og skipulagssviði í framhaldi af opnum fundi í Hagaskóla. Rétt er að halda til haga að fyrsta tillaga samráðshóps íbúa var að framkvæmdin yrði tekin til baka og gatan endurhönnuð frá grunni.

Breytingar á umferðarskipulagi Hofsvallagötu koma nú í fyrsta skipti inn í Umhverfis og skipulagsráð til afgreiðslu. Íbúum var ekki gefinn kostur á að gera athugasemdir áður en ráðist var í framkvæmdir en fengu fyrst tækifæri til að tjá sig á opnum fjölmennum íbúafundi í Hagaskóla þar sem andstaða við breytingarnar kom mjög skýrt fram. Ekki er lagst gegn því að fjarlægja flögg og eyjur til að auðvelda umferð og skýra betur akstursleiðir. Réttara væri þó að viðurkenna að hér voru gerð mistök sem betra er að leiðrétta með því að stíga til baka og byrja á byrjuninni. Eðlilegt er að kynningarfundur verði haldinn í hverfinu um þær tímabundnu aðgerðir sem gerðar verða áður en farið verður í endanlega hönnun götunnar sem mikilvægt er að verði í víðtæku samráði."