Hólabrekkuskóli fær viðurkenningu frá FÍB

Ingigerður Karlsdóttir stjórnarmaður í framkvæmdastjórn FÍB afhenti fyrr í dag Hólabrekkuskóla í Breiðholtshverfi í Reykjavík viðurkenningu félagsins fyrir vel skilgreindar og vel merktar gangbrautir yfir umferðargöturnar í næsta nágrenni skólans. Afhendingin fór fram í sal Hólabrekkuskóla og tók skólastjórinn; Hólmfríður G. Guðjónsdóttir við viðurkenningarskildinum "Gangbrautin 2014" fyrir hönd skólans. Viðstaddir voru m.a. nemendur 1. og 2. bekkjar skólans, Sigríður Björk Einarsdóttir formaður foreldrafélags Hólabrekkuskóla og Óskar Dýrmundur Ólafsson hverfisstjóri Breiðholts.

Afhendingin er þáttur í gangbrautaverkefni FÍB sem hófst sl. vetur og mun halda áfram næstu árin. Gangbrautaverkefni FÍB snýst um það að kanna gönguleiðir skólabarna í og úr skóla um land allt, hversu góðar og öruggar þær eru og hvar er þörf á úrbótum og þá hvers konar úrbótum. ( sjá hér: http://fib.is/?ID=2350 ). FÍB hyggst kanna ástand þessara mála árlega og þrýsta á um úrbætur þar sem úrbóta er þörf en veita jafnframt viðurkenningu fyrir það sem vel er gert til að tryggja sem best öryggi skólabarnanna. Hólabrekkuskóli er fyrstur til að hljóta þessa viðurkenningu FÍB.

Mikill fjöldi foreldra, aðstandenda og velunnara barna um allt land hefur frá því verkefnið hófst tekið virkan þátt í því með félaginu og sent m.a. inn myndir af gönguleiðum skólabarna við skóla og við umferðargötur og yfir þær. Sérfræðingar félagsins, þeirra á meðal tæknistjóri Euro RAP - öryggisrýni íslenskra vega, umboðsmenn félagsins og starfsmenn skoða fjölmarga þessara staða með eigin augum auk þess að fara yfir þau gögn sem berast. Starfsmenn verkefnisins hafa síðan samband við stjórnendur skólanna, sem og skipulags- og umferðaryfirvöld og þeim bent á það sem til fyrirmyndar er og það sem betur mætti fara. Á því ári sem liðið er frá því átakið hófst er ljós að átakið hefur leitt til fjölmargra endurbóta víða sem stuðla að bættu öryggi barnanna á leið þeirra í og úr skóla.

http://www.fib.is/myndir/holabrekkuskoli-2600.jpg

http://www.fib.is/myndir/holabrekkuskoli-600.jpg

http://www.fib.is/myndir/holabrekkuskoli-6001.jpg