Honda innkallar nú 440 þúsund bíla

Honda Motor Co innkallar nú samtals hátt í 950 þúsund bíla vegna galla í loftpúðum. Innköllun hafði áður farið fram á um 510 þúsund bílum en í gær var tilkynnt að innkallaðir yrðu til viðbótar 440,000 Hondabílar um allan heim. Ástæðan er gallaðir loftpúðar. Fréttastofa Reuters greinir frá þessu og segir að eitt dauðaslys og 11 meiðsli í Bandaríkjunum séu rakin til þessa umrædda galla sem er fólginn í því að púði springur út fyrirvaralaust og án þess að sérstakt högg komi á bílinn. 

Yoichi Hojo yfirfjármálastjóri Honda segir við Reuters að innköllunin sem nær til samtals 437,763 bíla muni líklega kosta fyrirtækið tvo til þrjá milljarða yena eða 22-33 milljónir dollara. Fyrst voru innkallaðir 4.200 bílar af gerðunum Accord og Civic en það gerðist í nóvember 2008. Ástæðan var galli í búnaði sem blæs loftpúðana upp. Ný innköllun vegna sama galla kom svo í júní sl. sem náði til 510,000 bíla um allan heim og svo innköllunin nú sem nær til 440 þúsund bíla sem fyrr er sagt.

Fréttafulltrúi frá Honda sagði við fréttamann Reuters í morgun að loftpúðarnir sem um væri að ræða væru framleiddir af bandarísku dótturfyrirtæki japansks undirframleiðanda Honda sem heitir Takata Corp. Talsmaður þess fyrirtækis kvaðst í samtali við Reuters ekkert kannast við að hafa afgreitt gallaða loftpúða til annarra bílaframleiðenda. Yoichi Hojo sagði að farið yrði fram á skaðabætur frá Takata og krafa gerð um bætta framleiðsluhætti framvegis. Vinnubrögð við framleiðsluna væru ekki í samræmi við forskrift Honda og gallann væri því að rekja til framleiðsluferlisins.

Nýja innköllunin nær til 2001 og 2002 árgerða Accord, Civic, Odyssey, CR-V, Pilot og 2002 árgerðar Acura TL and CL í Bandaríkjunum og Inspire, Saber og Lagreat í Japan. Allir bílarnir eru framleiddir í verksmiðjum Honda í Bandaríkjunum og Kanada.

Þótt þessi öryggisinnköllun hjá Honda sé nokkuð stór telst hún ekki stórvægileg miðað við þær hremmingar sem stærsti bílaframleiðanda heims, Toyota, má nú ganga í gegn um. En innköllunin hjá Honda nú kemur á viðkvæmum tíma fyrir bílaiðnaðinn í heild og sérstaklega þann japanska. Bílaframleiðendur hafa staðið í ströngu við að fá almenning á ný til að endurnýja bíla sína eftir söluhrunið sem varð þegar fjármálakreppan brast á og umræðan nú um innkallanir og öryggismál hjálpa sannarlega ekki til.

Og til að bæta gráu ofan í svart hjá Toyota berast nú fregnir frá Bandaríkjunum um að framkvæmdavaldið þar skoði nú kvartanir sem borist hafa vegna hugsanlegra ágalla í stýrisbúnaði nýrrar gerðar Toyota Corolla sem vel að merkja er allt annar bíll en Toyota Corolla í Evrópu. Bandaríska umferðaröryggisstofnunin, The National Highway Traffic Safety Administration (NHTSA), segir við fréttamann Reuters að yfir standi viðræður um þetta Corolla-stýrismál við Toyota. Þær séu hluti verklags í framhaldi af kvörtunum sem berast stofnuninni.

Það er því eins og vandamálin hjá Toyota eigi engan endi að taka því að til viðbótar við stóra bensínfetilsvandamálið sem nær til 8,1 milljón bíla kom í gær innköllunin á nýjustu kynslóð Prius og síðan hefur bæst við innköllun á rúmlega 7.300 nýjum Camry bílum í Bandaríkjunum vegna meints ágalla í hemlakerfi.