Honda innköllun í USA

Honda Motors hefur innkallað um 554 þúsund CR-V jepplinga af árgerðum 2002-2004 í Bandaríkjunum vegna hugsanlega gallaðra raflagna til aðalljósanna. Gallinn er talinn geta valdið því að skyndilega slokkni á lága geisla aðalljósanna. Innköllunin kemur í kjölfar rannsóknar NHTSA (The US National Highway Traffic Safety Administration). Tilefnið rannsóknar NHTSA er 12 kvartanir undan því að skyndilega slokknaði á báðum ljóskerjunum samtímis.

Í frétt frá Honda segir að hugsanlegt sé að galli fyrirfinnist í raflögn að aðalljósarofanum og að í innkölluninni verði þetta skoðað og hugsanlega skipt út raflögninni. Engin dæmi eru um að slys eða meiðsli hafi orðið vegna þessa.