Hönnunarstjóri KIA telur að fjölnotabílar komi sterkir inn aftur

Karim Habib var ráðinn hönnunarstjóri Kia í Kóreu á liðnu hausti en hann starfaði áður sem hönnunarstjóri BMW í nokkur ár og síðast í sama starfi fyrir Infiniti lúxusbílamerki Nissan í Japan.   Karim ræddi nýlega við sænsku útgáfunni af Auto Motor & Sport um þróun nýrra bíla og framtíðina hjá Kia. Hér á eftir fer stutt samantekt á því sem Karim sagði.

Þróun rafbíla?

Kia er stór framleiðandi og þar munu allar gerðir bjóðast rafknúnar á næstu árum.  Fram til 2025 mun Kia kynna 11 nýja rafbíla og frá og með 2026 gerir Kia ráð fyrir að 20% nýskráðra bíla verði rafbílar.  Þegar á næsta ári mun Kia koma með nýjan fjölnotarafbíl á markaðinn sem byggður er á nýjum rafbílagrunni Hyundai-grúppunnar.  Bíllinn á að vera með yfir 500 km akstursdrægni og ná að hraðhlaðast á 20 mínútum.

Það býður upp á góða valkosti að hanna rafbíl frá grunni m.a. getur golfið verið flatt og hjólhafið langt sem tryggir gott rými fyrir rafhlöður.  Þetta býður upp á rúmgott innanrými og stór hjól en þau henta vel undir rafbíla sem oft eru í þyngra lagi vegna rafhlaðnanna. Plássfrekar þykkar rafhlöður geta skapað erfiðleika við hönnun sumra rafbíla.

Sjálfakandi bílar?

Sjálfakandi bílar eru langt komnir í þróuninni en það munu líða mörg ár áður en alsjálfakandi bílar verða hluti af almennri umferð. Þegar þeir verða almennir munum við sjá róttækar breytingar í hönnun ökutækja.  Ekki verður lengur þörf fyrir stýri og önnur stjórntæki bílstjóra og líklega verða aflögunar- og krumpusvæði minni. Nú þegar er það áskorun fyrir hönnuði að koma öllum þessum nýju skynjurum fyrir í hönnun nýrra bíla.  Það þarf að samþætta tæknina lögun bílsins eins vel og mögulegt er.  Tökum t.d. stuðara sem áður sátu utan á bílum en eru núna hluti af heildstæðri yfirbyggingu.  Það er nauðsynlegt að bílar komandi framtíðar nýti raddstýringar og tæknin verður að vera örugg og virka betur en í dag.

Blaðamaður kom inn á það að núna væri mest sala í jepplingsafbrigðum af bílum.  Svo spurði hann  Karim Habib hvernig hann sæi þetta fyrir sér á komandi árum?

Það verður breytilegt eftir mörkuðum.  Kia er nýkomið inn á indverska markaðinn og hann lítur öðruvísi út.  Ég hef búið í Asíu í nokkur ár og hér eru fjölnotabílar mjög algengir ólíkt Evrópu. Í Asíu eru fjölnotabílar fáanlegir í lúxus útgáfum og í Japan eru það í raun algengasta bílategundin sem ekið er af einkabílstjórum. Hönnunardeild Kia er að skoða allar gerðir bíla. Persónulega tel ég að fjölnotabílarnir komi sterkir inn. Þeir eru heillandi og Kia hefur úrræði og fjárhagslegan styrk til að bjóða upp á fjölbreyttar gerðir af bílum.

Er samvinna um þróunarstarfið á milli Hyundai og Kia?

Við tilheyrum sömu fyrirtækjasamsteypu og leggjum áherslu á frekari samvinnu til að auka við þekkingu hjá báðum framleiðendum. En það er mjög mikilvægt að halda vörumerkjunum aðskildum.

Hvort er mikilvægara að hanna hugmyndabíl eða bíl sem er tilbúinn til framleiðslu?

Hugmyndabílar eru mjög mikilvægir fyrir okkur hönnuði.  Nýsköpunin skilar nýjum og spennandi tækifærum og möguleikum til framtíðar.  Þegar kemur að framleiðslu þá þarf að taka tillit til margs og finna hvort hlutir séu framkvæmanlegir tækni- og fjárhagslega . Okkar vinnu þarf að framkvæma út frá víðu sjónhorni og það dugar ekki að horfa bara á bílinn.  Við rannsökum á hverjum tíma breytingar í samfélaginu, tækniþróun og breytilegar þarfir fólks.

Hver er framtíðarsýn þín fyrir hönd Kia?

Það er mikið um að vera í bílaheiminum núna og það er áskorun fyrir okkur hönnuði.  Við munum ekki aðeins móta nýja bíla heldur einnig þróa vörumerkið og notagildi bílsins.  Mín sýn og forystumanna fyrirtækisins fara saman. Það er mjög sterkur vilji til breytinga hjá Kia.  Við viljum vera leiðandi í rafknúnum samgöngum og sjáum fyrir okkur þróun í átt að aukinni hlutdeild deilibíla og sérsniðinna ökutækjalausna.  Það er mikilvægt að hafa fókusinn á þörfum viðskiptavinanna, víð erum að búa til bíla fyrir fólk.

 

Karim Habib er hönnunarstjóri hjá KiaKarim Habib er kanadískur ríkisborgari af líbískum uppruna.  Hann nam við kanadíska og bandaríska háskóla áður en hann hóf störf við hönnun hjá BMW árið 1998.  Að  undanskildum þremur árum hjá Mercedes Benz var Karim hjá BMW til ársins 2017. Frá 2017 til 2019 var hann yfirmaður hönnunar hjá lúxus vörumerki Nissan, Infiniti, þar til hann hóf störf hjá Kia.