Horfið frá hugmyndum um veggjöld

Engar áætlanir er uppi um veggjöld á helstu leiðum til og frá Reykjavík. Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, en þetta kom fram þegar ríkisstjórnin kom saman til fundar í dag þar sem fjárlagafrumvarpið var tekið fyrir og áherslur einstakra ráðherra.

Á vef ruv.is  kemur fram að Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra minnir á helstu áherslur ríkisstjórnarinnar sem eru á uppbyggingu innviða; heilbrigðismál, menntamál og samgöngumál. Áherslur hans  inn í fjárlagafrumvarpið í samgöngumálum lúta að öryggisþáttum, einbreiðum brúm og fleiru.

Hann segir að rætt hafi verið um aukið fjármagn til samgöngumála. Forveri hans í starfi var með áætlanir um að leggja á veggjöld á helstu samgönguleiðir við höfuðborgina, en Sigurður Ingi segir að það sé ekki inni í myndinni lengur. Í samtali við ruv.is segir ráðherrann ekki stafkrók að finna um veggjöld í stjórnarsáttmálanum.

Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, hefur alla tíð lagst eindregið gegn hugmyndum veggjalda á helstu þjóðvegum til og frá höfuðborgarsvæðinu sem og annars staðar í vegakerfi landsins.