Horfnar bifreiðategundir

Fjölmargar evrópskar bifreiðategundir hafa í tímans rás horfið, sumar lifðu stutt en aðrar lengur og meðal hinna horfnu eru mörg vörumerki sem voru sterk um langt skeið. Lítum nánar á nokkra þessara horfnu góðhesta.

Borgward

http://www.fib.is/myndir/Lloyd-LP-300.jpg
Lloyd frá Borgward í Bremen.

Iðnjöfurinn Carl Borgward í Hansaborginni Bremen í N. Þýskalandi byrjaði snemma í  bílaframleiðslu. Fyrst byggði hann vörubíla en yfirtók árið 1929 samsteypuna Hansa-Lloyd og hóf að framleiða fólksbíla undir því nafni ásamt vörubílunum. Fljótlega  var Lloyd fellt úr nafni bílanna og hétu þeir eftir það Hansa fram til 1939 þegar enn var gerð nafnbreyting yfir í Borgward.

Að stríðinu loknu 1945 var strax hafist handa um að reisa Þýskaland og önnur stríðshrjáð ríki úr rústum og koma samgöngum í þokkalegt horf. Ódýrir smábílar voru lausnarorðið og Borgward endurlífgaði nafnið Lloyd á minnstu bílunum sem hann framleiddi en notaði bæði Hansa og Borgward á þá stærri og sumar gerðirnar hétu jafnvel báðum nöfnum eða - Borgward Hansa. Bílarnir seldust ágætlega, ekki bara í Þýskalandi heldur víðar, þar á meðal á Norðurlöndunum. Einkanlega varð Lloyd smábíllinn vinsæll allt fram á sjöunda áratuginn. Eftir því sem afkoma fólks fór batnandi jukust vinsældir Borgward Isabella bílsins sem var fimm manna og þótti sérlega fallegur. Hann kom fyrst á markað 1954 og var framleiddur í yfir 200 þúsund eintökum fram til ársins 1961, en þá varð Borgward verksmiðjan gjaldþrota og framleiðsla á Borgward, Hansa og Lloyd bílum stöðvaðist. Aðilar í Mexíkó eignuðust þá framleiðslutækin fyrir stærsta Borgward bílinn sem þá hafði fengið tegundarheitið P 100. P 100 var síðan byggður í Mexíkó fram til ársins 1970.

Horch

http://www.fib.is/myndir/Horch_37.jpg
Horch frá 1937.

August Horch stofnaði bílaverksmiðju í Zwickau í austanverðu Þýskalandi árið 1900. Hann byggði nánast einvörðungu dýra og flókna lúxusbíla alla tíð, eða þar til í stríðsbyrjun 1939 þegar þýsk einkabílaframleiðsla stöðvaðist og verksmiðjurnar hófu að framleiða hergögn. En næstu árin á undan hafði Horch-bílaverksmiðjan átt í fjárhagserfiðleikum og í kjölfar þeirra sameinast Auto Union samsteypunni en þar voru fyrir Audi, Wanderer og DKW.

DKW

http://www.fib.is/myndir/DKW-junior.jpg
DKW Junior frá því um 1960.

Danski verkfræðingurinn Jørgen Skafte Rasmussen hóf að framleiða DKW bíla og mótorhjól árið 1928 og sameinaði ekki löngu síðar DKW Auto Union samsteypunni. DKW. DKW bílarnir þóttu um margt ágætir, léttir, einfaldir og ekki dýrir. Nafnið fékk að halda sér fyrstu eftirstríðsárin en hvarf síðan. Hluti skýringarinnar á því er sá að eftir stríðið þegar Þýskalandi var skipt í tvö ríki og hið austara varð á áhrifastvæði Sovétríkjanna lenti heimaborg (og þar með verksmiðja DKW); Zwickau, austan megin nýju landamæranna. A. Þjóðverjar hófu bílaframleiðslu í DKW verksmiðjunni og tóku allt þar traustataki, m.a. þriggja strokka DKW tvígengisvélina og settu í bíla sem nefndust IFA en fengu reyndar ýmis gerðarheiti önnur.

En ekki læstust allar verksmiðjur Auto Union inni fyrir austan jártjaldið eftir stríð og fljótlega hófst framleiðsla í verksmiðjunum í Ingolstadt og Düsseldorf og þar birtist aftur nafnið DKW á smábílum. Þessir eftirstríðs-DKW bílar voru eins  og áður með tvígengisvélum og voru í framleiðslu allt fram til 1965 þegar Volkswagen eignast Auto Union og hætta tvígengisvélaframleiðslunni og leggja DKW nafnið þar með niður.

NSU

http://www.fib.is/myndir/NSU-Prinz.jpg
NSU Prinz frá því fyrir 1960.

NSU var upphaflega reiðhjólaverksmiðja sem hóf að framleiða skellinöðrur og mótorhjól og svo loks bíla. Bílaframleiðslan hætti í stríðsbyrjun 1939. Eftir stríðið hófst svo skellinörðu- og mótorhjólaframleiðslan á ný, en þráðurinn í bílaframleiðslunni var ekki tekinn upp aftur fyrr en árið 1957 með smábílnum NSU Prinz. Þótt Volkswagen hefði þarna eignast Auto Union var NSU rekið sem sjálfstæð eining og voru menn þar ósmeykir við að prófa sig áfram við nýjungar í framleiðslu og hönnun.

NSU Prinz var skemmtilegur og frumlegur bíll með tveggja strokka fjórgengisvél aftur í skottinu. Prinz varð verulega vinsæll bíll í Danmörku og Noregi og nokkrir bárust einnig hingað til lands. Ómar Ragnarsson hinn eini sanni eignaðist einn fyrsta þessara bíla hér á landi. NSU gerði á þessum tíma tilraunir með Wankel vélarnar og komu fram með tímamótabílinn RO 80 sem einmitt var fyrsti bíllinn með slíkri vél.

Wankel vélin reyndist alls ekki vel því miður, hún slitnaði fljótt og var mjög eyðslufrek og þótt RO 80 hefði verið valinn bíll ársins þegar hann kom fram árið 1967 þá gekk dæmið ekki upp með bílinn og Volkswagen yfirtók reksturinn 1969 og lagði NSU merkið niður árið 1973. RO 80 hélt hins vegar áfram í framleiðslu talsvert lengi með hefðbundinni bensínvél en undir gerðarheitinu VW K-70.

Simca

Franska Simca bílaverksmiðjan var stofnuð 1935 og framleiddi bíla undir Simca nafninu þótt í rauninni væru þeir Fiat bílar. Fyrsti upprunalegi Simca bíllinn kemur svo fram árið 1951 og nefndist hann Aronde. Og síðan fleiri gerðir. Bílarnir urðu vinsælir og það svo mjög á Norðurlöndunum (líka hér á landi) að taka þótti því að reisa sérstaka samsetningarverksmiðju fyrir Simca bíla í Svíþjóð.

http://www.fib.is/myndir/Simca-aronde.jpg
Simca Aronde.

Verulega tók að harðna á dalnum hjá Simca á sjöunda áratuginum og var framleiðslan og vörumerkið selt Chrysler árið 1970. Eftir það er eins og Simca nafnið taki að fjara út. Það byrjar með nafninu Talbot-Simca sem síðar verður bara Talbot. Enginn bíll með Simca nafni hefur verið byggður eftir 1980.