Hraðaskilti virka vel til að stemma stigu við hraðakstri

Vinna að fyrsta áfanga tvöföldunar Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Selfoss eru nokkurn veginn á áætlun. Þrátt fyrir einhverjar tafir er stefnt að því að klára verkefnið um miðjan október. Þetta kemur fram í samtali við Águst Jakob Ólafsson, yfirverkstjóra hjá Íslenskum aðalverktökum á heimasíðu Vegagerðarinnar.

Í maí var umferð hleypt á hjáleið um Ölfusveg og segir Ágúst umferðina hafa gengið mjög vel. „Sáralitlar truflanir eða tafir hafa orðið. Hins vegar mætti umferðarhraðinn vera heldur hóflegri og svo er fólk að taka framúr sem er ekki leyfilegt á þessum kafla. Menn hafa því verið að flýta sér heldur mikið sumir hverjir.“

Til að hvetja vegfarendur til að virða lægri hámarkshraða hefur ÍAV sett upp hraðaskilti við vestari enda hjáleiðarinnar. Hraðaskiltin eru í formi broskarla sem brosa og lýsa grænir þegar hraði bíla er undir hámarkshraða en gretta sig með fýlusvip og rauðum lit ef ekið er yfir hámarkshraða.

„Við settum upp tvo broskarla fyrir tíu dögum og þeir virka mjög vel. Einhvern veginn virðist innbyggt í fólk að sækjast eftir broskarli en vilja ekki fýlukarl. Vilja ekki allir fá fallegt bros?“ segir Ágúst og brosir sjálfur glaðlega enda gaman þegar gengur vel.