Hringinn og hálfa leið til Akureyrar

http://www.fib.is/myndir/Oskar.jpg
Óskar Örn Guðbrandsson og dóttir hans, Þuríður Arna.

Áheitsferðinni umhverfis landið sem Hekla hf. gekkst fyrir og greint er frá í fréttin hér á undan, lauk um eittleytið á miðvikudag við höfuðstöðvar Heklu. Markmið ferðarinnar var það að komast hringinn á einum tanki af dísilolíu á Skoda Octavia 1,9 TDI dísilfólksbíl og tækist það, myndi Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna fá samskonar bíl til frjálsra endurgjaldslausra afnota í eitt ár.

FÍB ákvað að taka þátt í þessu máli af tvennum ástæðum: Félagið vildi taka þátt í stuðningi við krabbameinssjúk börn og fjölskyldur þeirra sem vegna erfiðra veikinda eins eða fleiri fjölskyldumeðlima búa við þungt tilfinningaálag, skerta afkomumöguleika og oftar en ekki erfiðan fjárhag. Í öðru lagi vildi félagið sýna fram á hagkvæmni nýjustu kynslóða dísilknúinna fjölskyldubíla sem loks nú eru orðnir raunverulegur og hagkvæmur valkostur fyrir heimilin í landinu.

Með í för í áheitsferðinni voru Óskar Örn Guðbrandsson framkvæmdastjóri Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna og fjögurra ára dóttir hans Þuriður Arna sem einmitt glímir við erfið veikindi. Skemmst er frá því að segja að litla stúlkan var ótrúlega þæg, þolinmóð og dugleg alla ferðina og allar efasemdir ökumanns um að leggja þessa löngu ferð á barnið reyndust ástæðulausar, enda gætti faðirinn barns síns af frábærri kostgæfni alla leiðina, sat oftast við hlið henni meðan á akstri stóð og hafði ofan af fyrir henni á allan hátt þannig að fullyrða má að barnið var í það minnsta jafn vel sett og á heimilinu.

Meðan gamla þungaskattskerfið var enn við lýði voru dísilknúnir fólksbílar algerlega dæmdir úr leik sem hagkvæm farartæki heimilanna í landinu. FÍB barðist þessvegna hart gegn þungaskattskerfinu í áraraðir og hafði loks sigur þegar lög um afnám þungaskattsins og upptöku olíugjalds voru naumlega samþykkt á alþingi. Þessi nýafstaðna sparakstursferð staðfestir enn einusinni að upptaka olíugjalds var talsvert skref í rétta átt.

Skemmst er frá að segja að þessi ökuferð umhverfis landið tókst með ágætum enda voru öll skilyrði eins og best varð á kosið. Ferðalangarnir höfðu nokkurn mótvind frá Egilsstöðum að Kirkjubæjarklaustri en að öðru leyti ýmis meðvind eða þá blæjalogn, sólskin og lofthita frá 18-24 gráður.

Þegar sjálfum áheitsakstrinum lauk við höfuðstöðvar Heklu á miðvikudag vildum við hjá FÍB komast að því hversu langt bíllinn kæmist á þeim 55 lítrum af olíu sem voru á eldsneytisgeyminn í upphafi ferðar. Því lögðu þeir Stefán Ásgrímsson og Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri í hann að móttökuathöfn lokinni og eftir 1.307 kílómetra akstur og héldu enn út á þjóðveg 1. Þeir bjuggust við að komast langleiðina í Borgarnes - kannski - en það fór á annan veg. Rennt var framhjá Borgarnesi og þá töluðu þeir um að kannski kæmust þeir upp að Baulu eða jafnvel að Hreðavatnsskála. En áfram hélt bíllinn þótt tölvan segði að ekki væri dropi af olíu eftir og bíllinn færi einungis 0,0 kílómetra „í viðbót.“ Þegar Fornihvammur nálgaðist bjuggust menn ekki við að komast yfir Holtavörðuheiðina, en upp hana fór bíllinn, framhjá Brú, framhjá Staðarskála, framhjá Reykjaskóla og yfir í Miðfjörð, framhjá Laugabakka og yfir í Víðidal. Loks kom fyrsti hikstinn þegar Víðigerði blasti við framundan og svona 200 metra frá bensíndælunni á hlaðinu í Víðigerði dó mótorinn og bíllinn rann að dísilolíudælunni - með tóman olíutank - loksins. Þá stóð kílómetrateljarinn í 208 kílómetrum til viðbótar við þá 1307 sem fyrir voru af hringnum. Alls hafði því bílnum þarna í Víðigerði verið ekið 1515 kílómetra á einni og sömu tankfyllinni, 55 lítrum. Það þýðir meðaleyðslu upp á 3,5 lítra á hundraðið.

http://www.fib.is/myndir/Skoda_uppgefinn.jpg
Runólfur Ólafsson og Stefán Ásgrímsson frá FÍB við Skódann sem loksins er orðinn olíulaus, kominn hringinn í kring um landið og aftur norður í Víðigerði. Mynd: Matthías Ægisson.