Hröð orkuskipti í Reykjavík

Á fundi í borgarráði 6. janúar sl. var samþykkt að vísa tillögu borgarstjóra um hröð orkuskipti til umsagnar umhverfis- og heilbrigðisráðs og stýrihóps um mótun almennrar eigendastefnu Reykjavíkurborgar. Tillögunni fylgdi skýrsla starfshóps um hröð orkuskipti í Reykjavík. Í skýrslunni eru lagðar fram alls 35 tillögur að aðgerðum til að hraða orkuskiptum í borginni.

Þegar farið er yfir tillögurnar er helst horft til ólíkra gerða farartækja, fólksbíla, atvinnubifreiða, stórra og smærri, skipa og báta auk þess sem litið var til hvernig hægt væri að vinna að orkuskiptum á byggingasvæðum þar sem stórtækar vinnuvélar eru að störfum.

Auk þess var hugað að því að auka almenningssamgöngur en orkuskipti er lykilþáttur í að draga úr útblæstri í borginni. Þegar horft er til orkugjafa við orkuskipti telur starfshópurinn að þau munu a næstu árum helst byggjast á þremur orkugjöfum þ.e. metani, rafmagni og vetni. 

Til að ná fram hröðum orkuskiptum í Reykjavík, getur borgin tekið frumkvæði að því sem heyrir undir hana, farartæki í hennar eigu og leigu, útboð og skipulag á lóðum til að tryggja innviði til orkuskipta.

Þá getur borgin beitt ákveðnum hvötum og leiðbeiningum til þeirra sem reka stóra bílaflota og útfært reglur til að hraða orkuskiptum. Einnig er lagt til að fjölga hraðhleðslustöðvum bæði hjá heimilum og á almennum bílastæðum.

Fram kemur að orkuskipti í höfuðborginni er mikilvægt samstarfsverkefni við fjölmarga ólíka aðila. Önnur sveitarfélög, hið opinbera, fyrirtæki, bæði þau sem borgin á hlut í og þau sem starfa á almennum markaði, og svo þarf að vinna að því að innviðir séu til staðar til að auðvelda almenningi að taka þátt í orkuskiptunum.

Auk þessa þarf að skoða þær leiðir sem farnar hafa verið í nágrannaríkjunum til að ná sömu markmiðum.

Þverfaglegan starfshóp skipuðu fulltrúar frá  Orkuveitu Reykjavíkur, Veitum, Faxaflóahöfnum, Strætó, Sorpu, Malbikunarstöðinni Höfða og Reykjavíkurborg. Auk fagþekkingar fulltrúa starfshópsins leitaði hópurinn upplýsinga og fékk á fund við sig sérfræðinga í viðkomandi málaflokkum.

Skýrsla starfshóps