Hugmyndir AGS um stórfellda hækkun eldsneytisskatta

Í skýrslu um íslenska skattakerfið sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn (AGS) vann að beiðni Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra er meðal annars að finna hugmyndir um stórfellda hækkun eldsneytisskatta.  Hækkun eldsneytisskatta á samkvæmt skýrslunni að skila ríkissjóði um 3,8 milljörðum króna árlega

Næðu þessar skattahækkanir fram að ganga hefði það í för með sér um 16 krónu hækkun á hvern lítra af bensíni og dísilolíu.   Bifreiðakostnaður vísitölufjölskyldu myndi aukast um meira en 50.000 krónur yfir árið - bara vegna nýrra eldsneytisskatta.  Bensínlítri myndi hækka úr 193,40 krónum á lítra, sem er verðið í dag, upp í 209,40 krónur á lítra.  Dísillítri færi úr 190,40 krónum á lítra í 206,40 krónur.  Tankfyllingin (50 l.) myndi hækka um 800 krónur. 

Til viðbótar við þessi beinu áhrif á ráðstöfunartekjur heimilanna skilar hækkun eldsneytisgjalda sér beint út í verðlagið með tilheyrandi verðbólgu og hækkun á lánaskuldbindingum heimila og fyrirtækja. 

Félag íslenskra bifreiðaeigenda er alfarið á móti hækkun eldsneytiskatta í anda tillagna AGS fyrir fjármálaráðherra.  Hugmyndirnar eru lagðar fram í kjölfar áforma um  vegtolla á meginvegi út frá höfuðborgarsvæðinu.  Eldsneytisgjöld og vegtollar eru auknar álögur á heimilin og koma verst niður á þeim sem eru með lægri ráðstöfunartekjur og þurfa að sækja þjónustu um langan veg.  Tengingin við Noreg kemur spánskt fyrir sjónir enda ljóst að meðal Norðmaðurinn þarf að vinna mun styttri vinnudag til þess að eiga fyrir sínum bensínkostnaði  samanborið það sem við þekkjum hér á landi í núverandi skattaumhverfi.